Skoðun

Það er kominn 19. júní

Kristín Ástgeirsdóttir skrifar
Í dag minnumst við þess í 98. sinn að konur, sem orðnar voru 40 ára og eldri, fengu kosningarétt til Alþingis. Lengi vel var 19. júní nýttur til að safna fé fyrir Landspítalasjóðinn því breiðfylking íslenskra kvenna ákvað árið 1915 að „þakka fyrir“ kosningaréttinn með því að hefja söfnun fjár fyrir Landspítala.

Þær vildu knýja stjórnvöld til að taka á heilbrigðismálum þjóðarinnar sem voru í miklum ólestri. Þessi ákvörðun kvenna var í fullu samræmi við þá ríkjandi hugmyndafræði að konur ættu það erindi helst út á opinbera sviðið að láta gott af sér leiða, beita sér í sveitarstjórnum og á þingi í þágu kvenna, barna og þeirra hópa sem höllum stóðu fæti. Slíkar hugmyndir um hlutverk kvenna hafa reynst ótrúlega lífseigar eins og dæmin sanna.

Staðalmyndir

Landspítalinn reis ekki síst vegna þess að „fulltrúi kvenna“ á þingi, Ingibjörg H. Bjarnason, beitti sér af alefli fyrir byggingu hans. Frá því að hún sat ein kvenna í sölum Alþingis á árunum 1922-1930 er mikið vatn til sjávar runnið. Konum fjölgaði löturhægt í sveitarstjórnum og á þingi þar til hópar kvenna gripu til sinna ráða og buðu fram kvennalista rétt eins og konur gerðu fyrr á öldinni. Kvennahreyfingar beittu sér löngum fyrir launajafnrétti (sem ekki hefur náðst enn), jöfnum tækifærum til menntunar, leikskólum og samfelldum skóladegi, frjálsum fóstureyðingum og ýmsum fleiri málum sem flest eru komin í nokkuð gott horf.

Á níunda áratug síðustu aldar komst ofbeldi gegn konum á dagskrá og síðar börnum, viðfangsefni sem við glímum enn við. Það var sama sagan, konur tóku sig saman, stofnuðu samtök til að reka kvennaathvarf og síðar Stígamót og fleiri félög sem vinna með þolendum kynferðisofbeldis. Nú beinast sjónir ekki síst að þeim staðalmyndum kynjanna sem viðhalda kynjamisrétti og hefta einstaklingana bæði í einkalífi og atvinnu. Úti í Evrópu er misrétti meðal lífeyrisþega komið á dagskrá, mál sem við þurfum að sinna hér á landi.

Grasrótin og samstaða innan hennar hefur leikið langstærsta hlutverkið við að koma okkur í fremstu röð hvað varðar jafnrétti kynjanna í heiminum. Samvinna íslenskra kvennahreyfinga er einstök á heimsvísu og það eru fyrst og fremst aðgerðir þeirra í um það bil 140 ár sem hafa ýtt okkur áfram. Að sjálfsögðu eiga stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins sinn þátt í þeirri þróun sem hér hefur orðið. Sumt hefur orðið til hér heima, t.d. fæðingarorlof feðra sem lengi var alveg einstakt á heimsvísu, en annað er til komið vegna Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samþykkta kvennaráðstefna SÞ, ekki síst Pekingsáttmálans og meðfylgjandi framkvæmdaáætlunar frá 1995, en allt þetta hefur Ísland staðfest.

Mér finnst ástæða til að minna á alþjóðlegar skuldbindingar okkar í kjölfar umræðna sem orðið hafa um nefndaskipan á Alþingi sem stjórnarflokkarnir hafa reyndar blessunarlega brugðist við.

Sérkennileg rök

Í hvert sinn sem stjórnvöld eru gagnrýnd vegna jafnréttismála eða kröfur koma upp um nýjar aðgerðir heyrast raddir um að jafnréttislögin séu óþörf (og til óþurftar) og þar með Jafnréttisstofa, lögin veiti forréttindi og séu jafnvel brot á stjórnarskránni. Þetta eru sérkennileg rök en þau sýna að mannréttindabarátta kvenna á enn í vök að verjast og eins gott að halda vöku sinni. Það að konum (og körlum) sé tryggður ákveðinn hlutur með lögum, t.d. í stjórnum fyrirtækja, er túlkað sem forréttindi. Jafnréttið hljóti að koma af sjálfu sér t.d. með aukinni menntun kvenna af því að menn hljóti að velja þá hæfustu. Það er bara ekki þannig.

Konur eru löngu komnar langt fram úr körlum hvað varðar menntun en hún skilar sér hvorki í jöfnum launum né jöfnum völdum. Hefðir kynjakerfisins lifa enn góðu lífi. Þess vegna kveður Kvennasáttmáli SÞ á um (4. gr.) að það sem kallað hefur verð sértækar aðgerðir (bráðabrigðaráðstafanir heitir það í sáttmálanum) teljist ekki mismunun. Þess vegna ber íslenskum stjórnvöldum samkvæmt samþykktinni frá kvennaráðstefnu SÞ í Naíróbí 1985 (125 gr. til 131. gr.) að tryggja skipulega starfsemi til að koma á kynjajafnrétti á landsvísu „með nægjanlegar tekjulindir, aðstöðu og völd á æðsta þrepi stjórnsýslunnar“. Þess vegna er heill kafli (H kaflinn um Institutional mechanisms) í framkvæmdaáætlun SÞ frá 1995 um margvíslegar skyldur stjórnvalda hvað varðar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna og tryggja kynjajafnrétti.

Á þessum degi þegar við minnumst baráttu gömlu kvenréttindakvennanna sem ruddu brautina er vert að hvetja þingmenn og reyndar alla landsmenn til að kynna sér og halda í heiðri alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Við erum hluti af samfélagi þjóða og eigum að vera í fremstu röð við að tryggja mannréttindi bæði kvenna og karla.




Skoðun

Sjá meira


×