Innlent

Fær tæpar tvær milljónir í bætur vegna gæsluvarðhalds og farbanns

Norræna.
Norræna.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið í dag til þess að greiða konu rétt tæplega tvær milljónir króna í bætur vegna gæsluvarðhalds og farbanns sem konan þurfti að þola eftir að hún var handtekin ásamt annarri konu við komuna hingað til lands með Norrænu í júní árið 2010.

Konan var með fimm ára gömlum syni sínum þegar hún var handtekin. Í ljós kom að 20 lítrar af amfetamínbasa reyndust vera faldir í bílnum, en ökumaður bílsins, Elena Neuman, var dæmd í átta ára fangelsi fyrir innflutninginn. Í ljós kom að hún hafði boðið konunni og syni hennar með sér án þess að segja þeim að hún væri að flytja fíkniefni til landsins.

Konan neitaði sök allan tímann og var framburður hennar stöðugur. Konan sat í gæsluvarðhaldi í 117 daga og var svo úrskurð í farbann í rúman mánuð. Í niðurstöðu dómsins segir að ekkert hafi komið fram sem benti til þess að hún hafi vitað að ferðalagið, sem Elena bauð henni í, hafi verið greitt af einhverjum öðrum en henni.

Þá hafi framburður Elenu verið því marki brenndur þegar ósamræmi kom upp í hennar framburði og konunnar, að hið rétta hafi verið það sem stefnandi bar en Elena breytt framburði sínum. Þegar tekið er tillit til þess alls kemst dómari að þeirri niðurstöðu að ríkið skuli greiða konunni 1.8 milljón í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×