Innlent

Hótaði saksóknara: "Bíddu bara, eftir sjö daga þegar ég losna“

Hæstiréttur Íslands þyngdi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni, fæddum 1979, sem var dæmdur fyrir brot gegn valdstjórn, en hann hótaði meðal annars aðstoðarsaksóknara ofbeldi í mars árið 2011 með því að benda á hana og segja:

„Bíddu bara, eftir sjö daga þegar ég losna", en orðin viðhafði ákærði eftir að dómari hafði, að kröfu saksóknara, úrskurðað manninn í gæsluvarðhald.

Þá hótaði hann lögreglumanni, sem þar var við skyldustörf, ofbeldi en sá dæmdi tók upp stálstól, sveiflaði honum aftur fyrir sig og sýndi tilburði til þess að kasta honum í lögreglumanninn.

Nokkru síðar í bílageymslu Héraðsdóms reyndi hann að hrækja á lögreglumann. Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot.

Fyrir Hæstarétti krafðist maðurinn aðallega ómerkingar héraðsdóms annars vegar þar sem hann hefði aldrei komið fyrir héraðsdómara þann, er dæmdi málið og hins vegar þar sem nauðsynlegt hefði verið að fjölskipa héraðsdóminn. Hann krafðist þess að dómari, sem upphaflega sat málið, viki sæti þar sem vitni að ofbeldishótun sem hann beindi gegn saksóknaranum, væri dómaritari. Það var ekki fyrr en eftir þingfestinguna sem dómari vék sæti.

Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að maðurinn hefði átt þess allan kost að mæta til þinghalda, meðal annars við aðalmeðferð málsins. Þar sem verjandi hans hefði verið við hana staddur og átt þess kost að beina spurningum til vitna hefði réttinda mannsins verið nægilega gætt eins og á stóð.

Auk þess hefði sönnunarfærsla um þá ákæruliði þar sem maðurinn neitaði sök farið fram fyrir þeim dómara er málið dæmdi. Var því ekki fallist á ómerkingu héraðsdóms af þeim sökum.

Þá féllst Hæstiréttur ekki á það með manninum að tilefni hefði verið til fjölskipunar héraðsdóms. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu hans sem og um upptöku á fíkniefnum og tveimur lömpum.

Maðurinn fékk upphaflega 12 mánaða fangelsi en refsing hans var þyngd um þrjá mánuði, því var hann dæmdur í 15 mánaða langt fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×