Innlent

Nam sjö ára telpur á brott og braut á þeim

Stígur Helgason skrifar
Eftirlýstur Maðurinn var eftirlýstur af lögreglu dagpart en gaf sig síðan sjálfur fram.
Eftirlýstur Maðurinn var eftirlýstur af lögreglu dagpart en gaf sig síðan sjálfur fram.
Maður situr í gæsluvarðhaldi grunaður um kynferðisbrot gegn tveimur sjö ára stúlkum. Hann sagðist hafa séð þær stela nammi, skipaði þeim að koma með sér og ók með þær á afvikinn stað. Grafalvarlegt mál að stela börnum, segir lögregla.

Karlmaður á fertugsaldri situr nú í gæsluvarðhaldi eftir að hafa gabbað tvær sjö ára telpur upp í bíl sinn í Árbæ á þriðjudag brotið á þeim kynferðislega.

Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að maðurinn sé í haldi, grunaður um að hafa brotið á stúlkunum. Hann segir málið litið alvarlegum augum.

„Það er auðvitað grafalvarlegt mál að nema börn svona á brott – að stela börnum í rauninni," segir hann. Hann segir að brotið geti varðað við 193. ákvæði hegningarlaga sem kveður á um barnsrán. Við því liggur að hámarki sextán ára fangelsi. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir manninum, sem kveðinn var upp á þriðjudag, er meðal annars grundvallaður á því. Björgvin varðist frekari fregna af málinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins höfðu stúlkurnar stolist til að taka sælgæti ófrjálsri hendi úr nammibarnum í verslun Krónunnar í Árbæ. Þær stóðu síðan fyrir utan búðina og gæddu sér á fengnum þegar maðurinn gaf sig á tal við þær, sagðist hafa séð til þeirra og að þær þyrftu að koma með honum. Hann mun þó ekki hafa villt á sér heimildir sem lögreglumaður.

Telpurnar settust upp í bíl til mannsins, sem ók með þær á afvikinn stað, þar sem hann er talinn hafa brotið gegn þeim kynferðislega. Hann skilaði þeim síðan aftur í nágrenni búðarinnar. Brotin munu þó ekki hafa verið af allra grófasta tagi.

Lögregla lýsti eftir manninum á þriðjudag eftir að hafa fengið tilkynningu um málið. Maðurinn gaf sig sjálfur fram í kjölfarið að myndir birtust af honum í fjölmiðlum. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudags vegna rannsóknarhagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×