Innlent

ESB og Noregur skammta sér yfir 90% af makrílkvótanum

„Það veldur miklum vonbrigðum að Evrópusambandið og Noregur hafi einhliða skammtað sér tæplega 490 þúsund tonna makrílkvóta fyrir árið 2013, eða ríflega 90% af ráðlagðri heildarveiði úr makrílstofninum," segir í yfirlýsingu frá Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um niðurstöðuna af samningum ESB og Norðmanna um makrílkvóta í ár.

Yfirlýsingin er birt á vefsíðu stjórnarráðsins. Í henni segir að samkvæmt þessu ætla þeir Íslandi, Færeyjum og Rússlandi innan við 10% veiðihlut. Með þessu er horft framhjá breyttu göngumynstri makrílstofnsins, en á árinu 2012 er áætlað að um 1,5 milljónir tonna af makríl hafi verið í íslensku lögsögunni, hafi þyngst þar um allt að 50% og étið allt að 3 milljónum tonna af fæðu með tilheyrandi áhrifum á lífríkið.

„Lykillinn að lausn makríldeilunnar er að tekið verði fullt tillit til þessara miklu breytinga á göngu makrílsins, að allir aðilar fái sanngjarnan hlut og umfram allt að veiðarnar byggist á vísindalegu mati á ástandi stofnsins.

Við vonum að Evrópusambandið og Noregur sjái að sér og verði tilbúnir að setjast að samningaborðinu til þess að finna varanlega lausn sem tryggi sjálfbæra nýtingu stofnsins. Það eru hagsmunir allra hlutaðeigandi aðila að lausn finnist sem fyrst," segir Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×