Skoðun

Leigumarkað í forgang

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Vaxandi hópur Íslendinga býr ekki við húsnæðisöryggi. Margir þurfa að sætta sig við háa leigu fyrir lélegt húsnæði og árlega flutninga með þeim áhyggjum, umstangi og kostnaði sem því fylgir. Öllum ætti nú að vera ljóst að breyta verður áherslum i húsnæðismálum og koma á eðlilegum leigumarkaði.

Lóðir og húsnæðisbótakerfi

Á síðasta kjörtímabili var unnin ný stefna í húsnæðismálum og umfangsmiklar tillögur mótaðar. Lykilatriðin í þeirri vinnu komu fram í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi. Mikilvægustu aðgerðirnar að því markmiði eru tvær. Í fyrsta lagi að samfélagslega ábyrg húsnæðisfélög fái stuðning í formi t.d. lóða frá sveitarfélögum og ríkinu og í öðru lagi að komið verði á húsnæðisbótakerfi sem mismunar ekki leigjendum og kaupendum. Í dag er staðan sú að hjón á leigumarkaði fá varla húsaleigubætur ef þau eru bæði á vinnumarkaði en ef þau taka þá áhættu sem fylgir því að fjárfesta í húsnæði fá þau vaxtabætur. Þetta er ekki gott kerfi. Vinna að nýju húsnæðisbótakerfi var komin það langt fyrir kosningar að með póltískum vilja hefði verið hægt að samþykkja nýtt kerfi nú fyrir áramótin. Því miður var það ekki gert.

Pólitískur vilji?

Ríkisstjórnin treysti sér ekki til að styðja þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar þrátt fyrir mikla ánægju umsagnaraðila. Ástæðan er sú að nýr félags- og húsnæðismálaráðherra er að vinna að málinu. Nú eru niðurstöður úr þeirri vinnu að líta dagsins ljós og þær eru algjörlega í takt við tillögur Samfylkingarinnar um eflingu leigumarkaðar.

Ástandið á húsnæðismarkaði mun bara versna ef stjórnvöld setja málið ekki í forgang. Samfylkingin skorar á ríkisstjórnina að setja lög um nýtt húsnæðisbótakerfi á vorþingi og setja aðra vinnu tengda leigumarkaði í algjöran forgang. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sýnt mikinn metnað í stefnumótun í húsnæðismálum og styður nýtt húsnæðisbótakerfi. Reykjavíkurborg hefur stigið skrefinu lengra og hafið umfangsmikla uppbyggingu á leiguhúsnæði. Mun ríkisstjórnin fylgja í kjölfarið?




Skoðun

Sjá meira


×