Skoðun

Jöfnum stöðu norrænu tungu- málanna í skólum

Kristján E. Guðmundsson skrifar
Nýlega fylgdist ég með heimildarþætti í danska sjónvarpinu sem fjallaði um samskipti danskra og sænskra framhaldsskólanema þar sem meginvandamálið var að þeir skildu ekki hvorir aðra þrátt fyrir sífellt nánari samskipti eftir að brúin kom yfir Eyrarsund. Þau grípa því oft til þess að nota ensku í samskiptum sín á milli. Þó tungumálin séu náskyld er það framburðurinn sem veldur vandamálinu að mati ungmennanna.

Hér á landi var danska fyrsta erlenda málið sem ungmenni þurftu að læra, þó nokkuð sé um liðið síðan hún var færð í annað sætið og enska sett í það fyrsta. Enn er þó danska skyldunám í grunn- og framhaldsskólum hér á landi. Vegna náinna tengsla okkar við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum er fullkomlega eðlilegt að í skyldunámi sé einhver kennsla í einu tungumáli þessara þjóða sem þá um leið gefur okkur lykil að hinum. Spurningin er hvort danskan sé þar heppilegust.

Til þess að geta valið norsku eða sænsku gilda hins vegar strangar reglur um að nemandi hafi, eða hafi haft, sérstök tengsl við Noreg eða Svíþjóð, þ.e. hafi átt þar heima, stundað þar nám, eða eigi norskt eða sænskt foreldri. Samkvæmt þessum reglum er því krafist töluverðrar forþekkingar í þessum tungumálum til þess að fá að taka þau sem annað mál í stað dönskunnar.

Einn vinnumarkaður

Nú er það svo að danskur framburður er okkur ekki tamur og fyrir marga erfitt að ná á honum góðum tökum. Annað gildir um norsku og sænsku (þó þar séu mállýskur stundum erfiðar). Það er töluvert auðveldara fyrir okkur Íslendinga að ná góðum tökum á framburði þeirra tungumála. Auk þess eiga flestir Svíar og Norðmenn tiltölulega auðvelt með að skilja hvorir aðra. Ágætt dæmi um það er hinn ágæti sænsk/norski spjallþáttur „Skavlan“ þar sem þáttastjórnandinn er norskur, þátturinn tekinn upp í Stokkhólmi og flestir viðmælendur ýmist norskir eða sænskir og virðast eiga auðvelt með að skilja hverjir aðra.

Þeir Danir sem ég hef spurt segjast líka eiga auðvelt með að skilja norsku (sem einn danskur vinur minn kallaði „dansk med stavefejl“).

Það eru sögulegar ástæður fyrir því að danska var hér kennd sem fyrsta erlenda málið. Nú er öldin önnur. Norðurlöndin, sem standa okkur næst menningarlega, eru orðin einn vinnumarkaður. Í dag er auðveldara að skreppa til Óslóar en var að fara frá Snæfellsnesi til Reykjavíkur fyrir 50 árum.

Til að gera mönnum betur kleift að nýta þau tækifæri sem þessar frændþjóðir okkar hafa upp á að bjóða þurfum við að tileinka okkur það tungumál sem allir skilja án þess að grípa til enskunnar. Gefum skólunum kost á að bjóða börnum okkar möguleika á því að læra norsku (bokmål) eða sænsku í stað dönskunnar ef þau kjósa svo. Til þess þarf einfalda breytingu á reglugerð.




Skoðun

Sjá meira


×