Skoðun

Þrengt að umsjónarkennslu

Páll Sveinsson skrifar
Mér er hugleikin staða menntamála á Íslandi og ekki hvað síst staða kennara á Íslandi. Þar sem ég hef starfað í grunnskólanum nú á þrettánda ár tel ég mig hafa fengið talsverða innsýn í starfið og hugmynd um hvar hlutirnir standa vel og hvar betur mætti gera. Starf umsjónarkennarans er mér vel kunnugt enda hef ég starfað sem slíkur frá upphafi og unað því ágætlega. Breyting hefur hins vegar orðið þar á síðustu árum vegna nokkurra þátta og fór ég fram á það við skólastjórnendur við minn skóla að ég þyrfti ekki að starfa sem umsjónakennari þetta árið. Ástæðurnar eru nokkrar.

Fyrst vil ég nefna umfang umsjónarkennslunnar. Umfangið hefur sífellt orðið meira af einhverjum ástæðum. Hver er ástæðan fyrir því? Jú, svo virðist sem heimilin, foreldrar og forráðamenn grunnskólabarna séu að glíma við ýmsan vanda. Má þar nefna tímaskort sem er sennilega mesta orsök aukins umfangs umsjónarkennslu – tímaskortur foreldra það er að segja. Hvað á ég við með þessu? Íslenskt samfélag er fast í vítahring vinnu og yfirvinnu þar sem tími foreldra með börnum virðist fara minnkandi. Að minnsta kosti virðast heimilin gera ráð fyrir því að það sé hlutverk menntastofnana að ala börn þeirra upp, hvort sem um ræðir í leik – eða grunnskóla. Stór hluti tíma umsjónarkennara fer í að sinna málum tengdum agabrotum, ofbeldisbrotum, einelti eða einhvers konar afleiðingum bágra félagslegra aðstæðna nemenda.

Þessi pistill minn er ekki til þessa fallinn að kvarta yfir hlutverki umsjónarkennara, síður en svo. Hins vegar verða þeir sem stýra menntamálum hérlendis að gera sér grein fyrir umfangi umsjónarkennslunnar. Góð umsjón með nemendum getur skipt sköpum í lífi og velferð einstaklinga, því er gríðarlega mikilvægt að kennarastéttin, stjórnendur skóla og aðrir sem að menntamálum koma stuðli að aukinni fagvitund umsjónarkennslu.

Sérfræðingastarf

Hér þarf að gera umsjónarkennslu að enn frekara sérfræðingastarfi, þar sem stjórnendur geta valið þá sem eru hæfir og hafa áhuga á að starfa við jafn mikilvægt starf og starf umsjónarkennarans er. Nokkrar mikilvægar breytingar þurfa að eiga sér stað á eðli og umgjörð starfs umsjónarkennara.

  • Fyrst vil ég nefna menntunina. Við verðum að mennta umsjónarkennara betur, þeir þurfa að geta brugðið sér í hlutverk hjúkrunarfræðinga, stjórnenda, sálfræðinga, foreldra, félagsfræðinga og vina auk hins hefðbundna starfs kennarans. 
  • Við verðum að gefa umsjónarkennurum tíma til að vinna að undirbúningi og úrvinnslu mála. Það er ólíðandi að umsjónarkennarar þurfi að láta mál reka á reiðanum vegna tímaskorts. 
  • Við þurfum að búa til enn betra stuðningsnet fyrir umsjónarkennara. Sveitarfélögin verða að leggja meira til námsráðgjafar og stuðnings við félagslega þætti sem stuðla að bættri líðan nemenda. Einnig að samræma löggjöf þannig að félagsmáladeildir sveitarfélaga vinni enn meira með skólum.
  • Laun umsjónarkennara þurfa að hækka verulega. Umsjónarkennarar bera mikla ábyrgð en fá ekki laun í samræmi við það. Umsjónarkennari fær einn launaflokk fyrir sína vinnu, það gerir í útborguðum krónun innan við tíu þúsund krónur á mánuði!
Það er gríðarlega mikilvægt að þeir sem með umboð kennara, stjórnenda og sveitarfélaga fara í komandi kjaraviðræðum geri sér grein fyrir mikilvægi þess að starf umsjónarkennarans verði eflt. Ábyrgðin er einmitt þeirra, sem með umboðið fara.




Skoðun

Sjá meira


×