Skoðun

Grunnskóli í sókn

Skafti Þ. Halldórsson skrifar
Grunnskólinn er ekki yfir gagnrýni hafinn. En oft er gagnrýni á hann ósanngjörn. Alþjóðlegar niðurstöður segja okkur að íslenski grunnskólinn standi vel. Við, sem vinnum við grunnskólann, teljum okkur vera að vinna gott starf og mig langar að taka dæmi af uppbyggingu Álfhólsskóla í Kópavogi, hvernig hægt er að byggja upp góðan skóla á stuttum tíma.

Þar starfa ég sem deildarstjóri en árið 2010 voru tveir skólar í Kópavogi sameinaðir, Digranesskóli og Hjallaskóli, í Álfhólsskóla. Lykilorðið í þessari sameiningu var jákvæðni. Foreldrar, kennarar og nemendur komu að öllum meginákvörðunum. Starfið hvílir á fræðilegum grunni en horft er til praktískra og árangursmiðaðra lausna.

Við sameininguna varð Álfhólsskóli stærsti grunnskóli landsins. Stærðin gaf kost á mörgum valgreinum á elsta stigi og því að sinna betur þörfum hvers og eins miðað við færni og virkni. Kennsla á unglingastigi í stærðfræði og íslensku var strax skipulögð í hópum út frá mati á þessum tveimur þáttum. Árið eftir sameiningu var kennsla í læsi á yngsta stigi einnig skipulögð í hópum. Kennsla í verkgreinum er sömuleiðis hópaskipt. Jafnframt var bekkjarskipan haldið í öðrum greinum og reynt þannig að sameina kosti tveggja kerfa, bekkjarkerfis og hópaskiptingar.

Snemmtæk íhlutun

Í skólanum eru tvær sérdeildir, nýbúadeild og sérdeild einhverfra. Af um það bil 700 nemendum skólans eru 134 með íslensku sem annað mál. Allir nemendur eru skráðir í bekkjardeildir. Það er hins vegar stefna skólans að nemendur af erlendu bergi brotnir séu í fyrstu eingöngu í nýbúadeild þar til þeir hafa náð það góðum tökum á íslensku að þeim nýtist nám í öðrum hópum og almennum bekkjardeildum.

Sama gildir um sérdeild einhverfra. Nú eru 27 nemendur í þeirri deild. Unnið er þar markvisst að því að efla sjálfstæði nemenda og getu þeirra til að takast á við umheiminn. Árið 2012 var síðan sett á laggirnar atferlisver fyrir drengi sem erfitt eiga með að vera í stórum hópum.

Arður Álfhólsskóla verður fyrst og fremst metinn út frá gildum hans, menntun nemenda, sjálfstæði þeirra og ánægju. Til þess að framfylgja þessum gildum beitum við skimunum og snemmtækri íhlutun. Þegar nemendum líður illa í skólanum er reynt að taka á vandanum með skipulegum hætti. Við höldum úti okkar eigin aðgerðarverkefni gegn einelti og vanlíðan, Saman í sátt, sem reynst hefur vel bæði sem forvarnarverkefni og aðgerðarverkefni. Ef námsvandi kemur í ljós er hann greindur og unnið út frá því. Mikil áhersla er lögð á mælingar á líðan nemenda og læsi því að lestur er undirstaða menntunar. Við notum okkur kenningar fræðimanna og skoðum þessa þætti með vísindalegum hætti.

Góð líðan

Þeir ytri mælikvarðar sem við höfum til að mæla árangur starfsins eru Skólapúlsinn, samræmd próf og ytra mat menntamálaráðuneytisins. Hvað varðar líðan nemenda mælist hún á Skólapúlsi betri en almennt gerist, sama gildir um áhuga á stærðfræði og náttúrufræði. Skólinn leggur jafnframt áherslu á skáklistina sem er raungrein út af fyrir sig og þar eru miðstigsnemendur Íslandsmeistarar og Norðurlandameistarar í skólaskák.

Það sjálfstraust sem nemendur öðlast við góð tök á lestri og stærðfræði skilar sér í góðu sjálfsáliti og góðri líðan. Í samræmdum prófum hefur Álfhólsskóli komið vel út. Þar eru einkunnir nemenda í heildina töluvert yfir meðaltali og hafa farið batnandi frá upphafi skólans.

Skólinn gekkst í vor undir ytra mat menntamálaráðuneytisins og niðurstöður þess glöddu okkur mjög. Í umsögn matsteymisins eru bæði ábendingar um gott starf og leiðbeiningar um tækifæri til umbóta sem skólinn er þegar farinn að vinna að. Í skýrslu teymisins fær stoðþjónusta skólans m. a. þá umsögn að virðing sé borin „fyrir fjölbreytileika og menningu ólíkra þjóða og markvisst unnið að félagslegri blöndun og aðlögun einstakra nemenda í sérdeildum í almenna bekki. Læsistefnan er skilmerkilega sett fram og öðrum til fyrirmyndar.“ Getur skóli óskað sér betri umsagnar?




Skoðun

Sjá meira


×