Skoðun

Það er drulluerfitt að breyta heiminum en lestu áfram

Kristín Elfa Guðnadóttir skrifar
Þér er sagt að það þýði ekkert að ybba gogg. Það er ekki satt. Þú getur hætt að versla við þá sem þér líkar ekki og kjósa þá sem þú treystir ekki. Þú getur hætt að borga reikninga, búið í tjaldi, veitt þinn eigin fisk og ég skal lofa þér því að það munu margir standa með þér. Þú getur meira að segja farið í stríð við stórfyrirtæki (sem okkur er sagt að sé ekki hægt) og milljónir munu standa með þér.

Það er hægt að breyta heiminum og við eigum nú þegar fólk úti um allan heim sem safnar saman og kemur á framfæri praktískum lausnum. Það er meira að segja hægt að breyta okkur þannig að okkur þyki nautakjöt ógeð. Það myndi nú aldeilis draga úr gróðurhúsaáhrifum. En við getum líka bara ákveðið hlutina sjálf og það er affarasælast.

Ég hvet þig til að skrifa niður á blað það sem þér finnst skipta mestu máli. Flestir hugsa um börnin sín og fjölskylduna. Margir hugsa um ást, lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, menntun og frið – þessi stóru og yndislegu hugtök. Og að borin sé virðing fyrir okkur, að við séum ekki áhrifalaus. Þegar við vitum hvað skiptir okkur mestu máli er næsta skref að finna leiðir. Við getum þetta.

Við eigum fólk sem trúir ekki á fjórflokka, gamaldags pólitíska iðkun og hægri/vinstri, allt þetta sem við notum til að aðgreina okkur og koma í veg fyrir að við getum myndað gott samfélag. Við höfum alltaf átt svona fólk en núna höfum við til viðbótar miklu betri tæki og tól til að skipuleggja okkur, fá upplýsingar og láta í okkur heyra. Það er mikilvægt að verja netið fyrir einræði. Og líka fyrir okkur sjálfum.

Tökum málin í eigin hendur

Það er drulluerfitt að breyta heiminum, ég ætla ekkert að skafa utan af því. Það er ekkert að Facebook og kó í hófi en neysla einfaldrar afþreyingar er alveg jafnhættuleg og þegar Neil Postman skrifaði þá frábæru bók „Amusing Ourselves to Death“. Hún rænir okkur þeim möguleika að breyta samfélaginu.

En ókei. Við erum með gott fólk, fína viðhorfsbreytingu og frábær tæki og tól. Málið er samt ekki í höfn. Við þurfum að skuldbinda okkur. Það er glæpsamlegt að leyfa LÍÚ að eiga landið. Það er fáránlegt að bankar græði milljarða á milljarða ofan á sama hátt og fyrir hrun. Það er súrrealískt að halda að til dæmis lyfjarisar eða landtökufyrirtæki beri hag okkar fyrir brjósti.

Og það er einfaldlega kjánalegt að trúa því að á meðan við sinnum okkar daglegu störfum þá reddist þetta allt saman einhvern veginn. Krefjumst alltaf svara og básúnum svörin, eða skort á þeim, á netinu.

Peninga og völd gefa sárafáir eftir. Við þurfum að taka málin í okkar hendur. Það er eina leiðin til að umhyggja, kærleikur, samvinna, traust og allt þetta góða sem við viljum að umljúki okkur sjálf þrífist í samfélaginu. Jörðin er að gefast upp á okkur og jafnvel þótt við bregðumst hratt við þá þurfum við að læra að lifa á annan hátt en við erum vön. Þeir sem halda um budduna bjarga ekki málunum. Það gerum við.




Skoðun

Sjá meira


×