Skoðun

Sjálfstæði Orkustofnunar

Sif Konráðsdóttir skrifar
Í grein eftir mig er birtist í blaðinu á miðvikudag í síðustu viku fjallaði ég um úttekt norskrar systurstofnunar Orkustofnunar, NVE, að beiðni iðnaðarráðuneytisins frá 2011. Eftirlit Orkustofnunar fékk falleinkunn í úttektinni. Á mánudaginn fjallaði ég svo um hvernig kostnaðaráætlun sem ætlað var að sýna að raflína frá Blöndu til Akureyrar væri fimm sinnum dýrari sem jarðstrengur heldur en væri hún loftlína, var þegar á reyndi „týnd“.

Í norsku úttektinni var fjallað um nauðsyn aðskilnaðar raforkuflutnings annars vegar og framleiðslu og sölu raforku hins vegar. Framleiðendur og seljendur raforku eigi ekki að hafa áhrif á ákvarðanir og starfsemi flutningsfyrirtækisins, hvorki beint né óbeint. NVE telur að þetta sé ekki uppfyllt á Íslandi, þar sem Landsnet sé í meirihlutaeigu heildsöluorkusalans Landsvirkjunar.

Fljótlega verður tekin upp í EES-samninginn tilskipun sem mælir fyrir um aðskilnað flutningsfyrirtækis frá framleiðendum og seljendum orku. Yfirvöld fá ákveðinn frest til að leiða efni hennar í lög og geta gert það með ýmsum hætti. Talað hefur verið um að það verði gert hér á landi 1. janúar 2015 og að lífeyrissjóðir og sveitarfélög muni geta eignast Landsnet. Allt á það eftir að koma í ljós.

Mikilvægur þáttur hinna nýju reglna er hins vegar að eftirlit með raforkuflutningsfyrirtækjum á að stórefla. Til að standa undir því þarf annað tveggja að setja á fót trúverðugan sjálfstæðan eftirlitsaðila eða renna umtalsvert styrkari stoðum undir þann veikburða sem fyrir er hér á landi: Orkustofnun.




Skoðun

Sjá meira


×