Skoðun

Lýst er eftir manni

Hermann Stefánsson skrifar
Lýst er eftir manni. Eða konu, það skiptir ekki máli. Ég lýsi eftir menningarsinnuðum hægrimanni. Nú er ég ekki að tala til vinstrimanna heldur er auglýsingunni beint til hægrimanna og ég er ekki að gantast með að menningarsinnaði hægrimaðurinn sé ekki til. Málið er að ég hef ég sáralítið orðið var við manninn að undanförnu og sakna hans. Hann þarf að vera allavega undir sextugu, kunna að meta bókmenntir, tónlist, myndlist og leiklist og hafa pólitíska trú á því að flokkurinn sem hann tilheyrir, Sjálfstæðisflokkur eða Framsóknarflokkur, geti sótt þangað gildi og innblástur, í allra minnsta lagi til þess að skreyta sig með á tyllidögum.

Síðast sást til mannsins á árunum fyrir hrun. Síðan hefur lítið til hans spurst og enn minna heyrst. Hinn týndi hefur skáld eins og Matthías Johannessen í metum en forsmáir ekki höfunda vegna stjórnmálaskoðana, enda lítur hann á skoðanafrelsi sem grunnstoð vestrænna gilda. Honum þykir sem oftar mættu hægrimenn njóta sannmælis í samfélagsumræðu og ekki síst í skáldskap, því hann trúir á eilífðina.

Hann er aðdáandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og á stórt bókasafn. Hann aðhyllist gamaldags mannúðarstefnu og hefur skilyrðislausa óbeit á rasisma og öðrum hatursstefnum. Hann er hófsamur í skoðunum, hæverskur og orðvar og hefur óbeit á upphrópunum. Sennilega er hann í þjóðkirkjunni. Hann hlustar á Rás 1 og harmar af heilum hug uppsagnirnar á Ríkisútvarpinu sem hann lítur á sem árás á eina af grunnstoðum íslenskrar menningar.

Hann eða hún kann mjög illa við allan smásálarhátt og nánasarskap. Það er klassi yfir þessari manneskju. Aurasálir þykja henni auvirðilegar. Ekkert getur hún hugsað sér lítilmótlegra en sparðatíning. Hún setur manngildi ofar auðgildi og tekur það alvarlega. Endurreisn íslenskrar menningar í sjálfstæðisbaráttunni finnst henni mögnuð, þar var svo sannarlega reisn, hugsar hún. Henni er slétt sama um sölutölur og skammast sín ekki fyrir snobb sitt, raunverulega virðingu fyrir raunverulegum gildum og raunverulegum kúltúr.

Á hverju ári hlustar hún undrandi á umræðuna um listamannalaun, heyrir samflokksmenn sína punda á rithöfunda sem búi í miðbænum og séu afætur. Síðan hlustar hún á svör vinstrimanna um að hagræn áhrif listarinnar séu slík að allt fé til þeirra skili sér margfalt til baka. Vafalaust rétt, hugsar týndi hægrimaðurinn með sér, en þó skyldi ekki gleyma raunverulegu gildi listarinnar þegar leitað er raka og réttlætinga fyrir tilvist hennar. Af hverju tala menn ekki um innihald?

Ekkert heyrist í hægri

Hægrimaðurinn lítur ekki svo á að heilbrigðiskerfi og menning séu náttúrulegar andstæður, fremur en heilbrigðiskerfi og eitthvað annað. Honum þykir niðurskurður ríkisstjórnarinnar til menningarmála hæpinn sparnaður og vafasöm sú þróun að auður safnist á fárra hendur meðan heilbrigðiskerfið drattist niður, það var ekki hans hugmynd þegar hann gerðist íhaldsmaður. Honum þykir sorgleg þróun að hægrimenn eru hættir að taka til máls um menningu öðruvísi en til að hæðast að henni af peningaástæðum eins og kúltúrlausir nurlarar.

Ekkert heyrist í menningarlega hægrinu. Það heyrist bara í einhverjum bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, þeim annars merka menningarstað, í Vigdísi Hauksdóttur, í sólbrúnum lögfræðingum og athugasemdaskrifurum á netinu sem eru einhuga um að hatast við alla menningu, hægristefna sé menntahatur.

Rökin eru alltaf þau sömu, peningamælikvarðinn, hægrimaður dagsins í dag lætur sig hafa þá smæð að margtelja smáaurana sem til lista renna. Hann er sífellt eitthvað að reikna, aldrei að hugsa, og hefur ekki einu sinni skynsamlega afstöðu til valda, því það er gömul saga og ný að hlutdeild í menningu er einhver árangursríkasta aðferðin við að festa völd í sessi og veita þeim áru lögmætis. Nýja hægrið virðist ekki trúa á nokkurn skapaðan hlut nema peninga. Það notar hvert tækifæri til að fjargviðrast út í listamenn og byrjar strax og einhver úr þess röðum lætur gera skoðanakönnun sem sýnir að landsmenn séu andsnúnir listum.

Nú er ég ekki hægrimaður né reyndar í neinum stjórnmálaflokki. En ég held að það séu til nýjar kynslóðir af menningarlegu hægri. Ég held að manneskjan sem ég auglýsi eftir sé til en þegi þunnu hljóði. Ég held að þótt hún þegi sárni henni mjög að láta háværa samflokksmenn sína tjá fyrir sig hatursfullar skoðanir á menningu eins og um almenna stefnu sé að ræða. Ég lýsi eftir manni, ég bið hann um að fara að tjá sig. Því það er verið að hafa hann að erkifífli.




Skoðun

Sjá meira


×