Skoðun

Strákarnir okkar

Gunnar Páll Leifsson skrifar
Nei, ég er ekki að tala um karlalandslið okkar í handbolta- eða fótbolta. Ég er að tala um strákana okkar sem eru í grunnskólum landsins. Og stelpurnar.

Mikið hefur verið fjallað um útkomu PISA-könnunarinnar frá 2012 í fjölmiðlum. Sérstaklega eru miklar áhyggjur af strákunum okkar og lesskilningi þeirra. Frammistaða þeirra á lestrarprófinu var mun lakari en stelpnanna og veldur það mörgum áhyggjum. Enda viljum við börnunum okkar það besta og þegar við lesum svona greinar er ekki annað hægt en að hafa áhyggjur, er ekki svo?

Að mínu mati hefur þessi umræða farið fram með fullmiklu offorsi. Víða er verið að ræða um breytingar á skólakerfinu eða námsefni, ábyrgð foreldra o.fl. Það er gott og blessað, en tel að það sé ástæða til að staldra aðeins við. Tölfræði getur verið mjög gagnleg en það þarf að fara varlega með hana, og túlka hana t.d. með hliðsjón af því sem er að gerast í kringum okkur.

Erum við svona sérstök hvað þennan kynjamun varðar? Hefur fólk skoðað frammistöðu barnanna í löndunum í kringum okkur og víðar? Ég get ekki sagt að niðurstöðurnar hafi komið mér á óvart en mig grunar að hún gæti komið sumum á óvart. Skoðum aðeins samanburðinn við önnur lönd í kringum okkur.

Ekki bundið við Ísland

Í PISA-könnuninni árið 2000 skoruðu strákar 40 stigum minna en stelpur í lestrarprófinu (488 á móti 528). ÖLL hin löndin í OECD-ríkjunum sem tóku þátt í rannsókninni þá sýndu fram á marktækan og sambærilegan mun og fannst hér á landi. Meðaltal munar í frammistöðu þeirra landa (27 talsins) var 32 stig, stúlkum í hag. Sama gilti um hin 12 löndin sem tóku þátt í könnuninni þá en eru ekki OECD-ríki.

Þessi munur er enn til staðar 12 árum seinna, í öllum OECD-ríkjunum 34, sem og hinum ríkjunum sem tóku þátt árið 2012 (31 talsins). Nú er munurinn að vísu meiri, bæði á Íslandi (51 stig) sem og annars staðar í OECD-löndunum (meðaltal 38 stig).

Hvað það er sem veldur þessum mun milli mælinga er vandséð, en ljóst er að bæði þessi kynjamunur og að það sé enn meiri kynjamunur nú en árið 2000 er ekki bundið við Ísland. Stelpur hafa verið betri í lestri en strákar síðan PISA-mælingar hófust, og líklega talsvert lengur en það. Munurinn finnst í öllum hinum löndunum í könnunni og líklega í öllum heiminum. Það segir mér að þessi munur sé ekki tilkominn vegna menningarmunar eða kennslufræðilegra eiginleika. Líklegra þykir mér að það sé vegna kynjamunar í taugaþroska heilans. En það er önnur saga.

Mér finnst við þurfa hafa þetta í huga áður en við förum að halda að strákarnir okkar séu svo mikið frábrugðnari strákum í öðrum ríkjum.




Skoðun

Sjá meira


×