Skoðun

Opið bréf til þingmanna: Nýtum kvótakerfi til að auka hagvöxt

Bergur Þórisson skrifar
Það virðist ríkja nokkuð gott samkomulag um að kvótakerfi sé góð leið til að nýta takmarkaða auðlind á sjálfbæran hátt. Rökin fyrir gagnsemi kerfisinns komu vel fram í ræðu formanns LÍÚ á aðalfundi sambandsins 2013:

„Sjávarútvegurinn hefur í gegnum tíðina lagt mikið til þjóðarbúsins og við erum í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að greinin skilar umtalsverðum tekjum til samfélagsins. Það sama á alls ekki við í öllum löndum þar sem sjávarútvegurinn er ríkisstyrktur til að hann fái þrifist. Ein af meginástæðum þess að sjávarútvegurinn hér á landi er í þessari stöðu er það kerfi sem hér hefur verið við lýði í 30 ár. Þetta kerfi hefur búið þeim fyrirtækjum sem í greininni starfa fyrirsjáanleika í rekstri sínum og þar með möguleika til að skipuleggja sig og hagræða. Með kerfinu hefur einnig komið hvatinn til að auka verðmæti og fjárfesta.“

Fyrst kvótakerfi hefur reynst okkur slíkt öndvegisáhald er þá ekki rétt að huga að því að taka upp slíkt fyrirkomulag í öðrum greinum? Ég hef starfað í um þrjátíu ár á sviði sem kallað hefur verið þekkingariðnaður og fæ ekki betur séð en að allar röksemdir sem styðja notkun kvótakerfis í þorskveiðum eigi líka við í þekkingariðnaði. Skoðum það nánar. Flestir eru sammála um að þekking sé auðlind. Ef dæma má af ræðum á tyllidögum þá er það meira að segja okkar verðmætasta auðlind. Menn þurfa svo að vera talsvert hrokafullir til að samþykkja ekki að þekking sé takmörkuð auðlind.

Þekking er sem sagt takmörkuð auðlind og því ættu lögmál kvótakerfis að virka í þekkingariðnaði. En hvernig skipuleggjum við kvótakerfi í þessari grein? Fyrst þarf að koma kerfinu á. Ef við förum eins að og við upphaflega úthlutun fiskveiðikvótans, þá látum við þá sem eiga atvinnutækin á einhverjum tíma öðlast rétt til kvóta. Þannig myndu hugbúnaðarhús og verkfræðistofur öðlast rétt til að ráða til sín úthlutað hlutfall af því fólki sem útskrifast úr tengdum greinum. Nýliðun í greininni ætti sér síðan stað með því að þeir sem áhuga hefðu leigðu eða keyptu kvóta af þeim sem fyrir eru í greininni.

Með möguleika á framsali og veðsetningu væri fjármögnun fyrirtækja í greininni verulega auðvelduð. Það blasir við að ef menn gætu veðsett óorðna uppfyndni, yrði staða þeirra talsvert sterkari.

Þessar hugmyndir finnst trúlega mörgum nýstárlegar, en hvað mátti ekki segja um upphaflega kvótakerfið á sínum tíma. Hvaða önnur þjóð hefði haft þann drífanda og dirfsku sem þurfti til að framkvæma þá hugdettu að flytja helstu auðlind þjóðar með einni lagasetningu úr eigu allra yfir í eigu fárra til hagsbóta fyrir alla. Það þótti og þykir enn nýstárlegt. Það gefur vissulega von að nú situr eins samsett stjórn og árið 1993 þegar kerfinu var upphaflega komið á, stjórn Framsóknar og Sjáfstæðisflokks undir forsæti Framsóknar. Formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, lagði nýverið fram hugmyndir sem líta má á sem fyrsta skref á þessari vegferð. Hún vill að þeir sem flytja þekkingu sína af landi brott, svo hún gagnast ekki landi og þjóð, greiði til baka þann kostnað sem þekkingaröfluninni fylgdi. Auðlindir ættu jú að vera sameign og því ekki eðlilegt að menn séu frjálsir af því að flytja þær úr landi án þess að eithvað komi fyrir.

Nú gæti einhver lesandi hugsað sem svo að þessi tillaga sé fullkomlega galin og vísast í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þeim vil ég benda á að:

Menn gjarnan að geðþótta samtalið beygja

Í samtímans samhengi er rökrétt að segja:

Viska vor öll virðist auðlind án hirðis.

Með velreyndum ráðum vex hún okkur til virðis




Skoðun

Sjá meira


×