Skoðun

Þeir fiska sem róa

Ólafur Mathiesen skrifar
Í síðustu viku var í fyrsta skipti úthlutað úr nýjum hönnunarsjóði íslenska ríkisins. Fyrir á bæli eru ýmsir aðrir gagnlegir sjóðir t.d. rannsóknarsjóður í sjávarútvegi, framleiðnisjóður landbúnaðarins, byggðasjóður og atvinnuþróunarsjóðir, en þetta er fyrsti hönnunarsjóðurinn.

Hönnunarsjóður veitir styrki til verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs; m.a. þróunar og rannsókna, verkefna og markaðsstarfs auk ferðastyrkja. Sjóðurinn veitir að hámarki 5 milljónir króna til hvers verkefnis og aldrei meira en 50% kostnaðaráætlunar. Styrkþegar fjármagna því verkefnin að stærstum hluta með öðrum hætti. Hæsti styrkur sjóðsins í ár er 3,8 milljónir, en meðalupphæð styrkja er 1-2 milljónir króna.

Þegar umsóknarfrestur rann út höfðu rúmlega 200 umsóknir borist um 400 milljónir króna, eða tífalda þá upphæð sem til skipta var. Þessi mikli áhugi hönnunargeirans er ánægjuleg staðfesting á þörf og mikilvægi sjóðsins. Með þennan fjölda góðra umsókna var sjóðsstjórn vandi á höndum. Ásamt samhentu og metnaðarfullu starfi starfsmanna Hönnunarmiðstöðvar Íslands tókst að þrengja valið. Það segir sig sjálft að mörg verðug verkefni urðu útundan. Þeim til huggunar er einungis sú staðfesta stjórnar að sjóðurinn fái framhaldslíf og eflist síðan með hverju ári sem líður. Von um framsýni þingmanna við fjárlagagerð skaðar ekki heldur.

Meðal verkefna sem hljóta styrki í ár eru nýjar fatalínur eldri og leiðandi, sem og ungra og upprennandi fatahönnuða. Nokkur fatahönnunarfyrirtæki hljóta styrki til markaðssetningar erlendis. Það gera líka vöru- og húsgagnahönnuðir og er um að ræða mikilvæga fjárfestingu í starfsemi fjölmargra fyrirtækja. Einnig hljóta verkefni á sviði grafískrar hönnunar og arkitektúrs styrki ásamt þróunarverkefnum í leirkerahönnun, skartgripahönnun og textílhönnun. Þá hljóta fimm rannsóknar- og söguskráningarverkefni einnig styrki.

Styrkirnir dreifast jafnt til ungra hönnuða, sem eru að stíga sín fyrstu skref, og þeirra reyndari sem hyggja á landvinninga. Hvort tveggja er mikilvægt fyrir fjölbreytni og heilbrigði í íslensku atvinnulífi.

Nú var 42 milljónum dreift á 49 einstaklinga og fyrirtæki. Það er þunnt smurt, en ef framlegð og ávöxtun verður í átt að því sem kom fram á síðum Fréttablaðsins um nýsköpunarsjóði fyrir skömmu gæti uppskera ríkisinss orðið rúmlega 420 milljónir eftir 10 ár.

Það er ágætis viðbit fyrir komandi kynslóðir.




Skoðun

Sjá meira


×