Lífið

Sýna dans í Hamborg

Bjarki Ármannsson skrifar
Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson stuttu áður en barnið kom í heiminn.
Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson stuttu áður en barnið kom í heiminn. mynd/magnús andersen
Sviðslista- og dansflokkurinn Shalala setur um þessar mundir upp verkið Transaquania – Into Thin Air í hinu virta leikhúsi Kampnagel í Hamborg. Með því lýkur hópurinn mánaðarlöngu sýningarferðalagi um Evrópu.

„Það heppnaðist mjög vel,“ segir Erna Ómarsdóttir, annar stjórnenda Shalala. „Við ferðuðumst meðal annars til nokkurra borga í Belgíu, Bordeaux í Frakklandi og Drezden.“ Hópurinn kom einnig við á sviðslistahátíðunum Kunstenfestival des Arts í Brussel og Der Steirischer Herbst í Graz. Þar flutti Shalala verkið H, an Incident í samstarfi við belgíska listamanninn Kris Verdonck.

Shalala er dansflokkur þeirra Ernu og Valdimars Jóhannssonar, eiginmanns hennar, og sýna þau nær algöngu erlendis. „Ég er búin að túra með mín verk síðan um 2002 og við stofnuðum Shalala til að halda utan um þessi verk,“ segir Erna. „Hópurinn helst uppi á því að ferðast.“

Erna er ekki með kollegum sínum í Hamborg um þessar mundir, en hún sneri aftur úr ferðalaginu eftir þrjár vikur til að annast fjögurra mánaða barn þeirra Valdimars. Er hún búin að vera í netsambandi við hópinn þessa vikuna og fylgist að sögn vel með öllu. „Það er miklu meira stressandi að sitja eftir heima,“ segir hún og hlær. Frumsýning á þriðjudagskvöld gekk þó mjög vel, en Erna segir átta hundruð manna áhorfendaskarann hafa fagnað gríðarlega í lok sýningar. „Þannig að maður vonar það besta fyrir næstu sýningu.“

Næst á döfinni hjá hópnum er uppsetning verksins To the Bone í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í janúar. Það verk flutti Shalala á Reykjavík Dance Festival í ágúst síðastliðnum og komust að sögn Ernu færri að en vildu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.