Lífið

Spilað á gorma

Ugla Egilsdóttir skrifar
Arnljótur segir hljómsveitina ætla að flytja lög sem aldrei hafa verið spiluð opinberlega áður, nema á Græna hattinum á Akureyri.
Arnljótur segir hljómsveitina ætla að flytja lög sem aldrei hafa verið spiluð opinberlega áður, nema á Græna hattinum á Akureyri. Fréttablaðið/Valli
Hljómsveitin Ojba Rasta verður með útgáfutónleika vegna nýju plötunnar sinnar á Harlem á föstudaginn klukkan 22. Platan heitir Friður. „Við lögðum upp með að platan yrði ólík fyrri plötunni okkar,“ segir Arnljótur Sigurðsson, söngvari og bassaleikari Ojba Rasta. „Ekki stæling á þeirri fyrri. Það er veglegra umslag á þessari en á fyrri plötunni. Platan er lengri og það eru fleiri orð á henni. Það má segja að það sé meira af öllu á henni. Á henni hljóma alls konar hljóðfæri. Það er meðal annars spilað á gorma. Svo er spilað á Klais-orgelið í Hallgrímskirkju, en okkur tókst reyndar ekki að fá það lánað fyrir tónleikana á Harlem.“

Á plötunni eru áhrif frá tónlist Miðausturlanda. „Við stiklum á friðarboðskap og segja má að lögin fjalli um það að vera skynvera. Það má kannski segja að þetta sé líkt laginu Ég heyri svo vel (ég heyri grasið gróa) með Olgu Guðrúnu Árnadóttur – en í þulurokkbúningi.“

Þess má geta að í kjallaranum á Harlem eru veggmálverk eftir Ragnar Fjalar Lárusson. „Hann hannaði plötuumslagið okkar. Fólk getur skoðað það eftir eigin hentisemi á tónleikunum.“ Hljómsveitin ætlar að spila í gegnum alla plötuna á tónleikunum. Grísalappalísa kemur einnig fram. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.