Lífið

Dagatal kvenheimspekinga gefið út

Ugla Egilsdóttir skrifar
Sigríður Þorgeirsdóttir er prófessor í heimspeki.
Sigríður Þorgeirsdóttir er prófessor í heimspeki. Fréttablaðið/Valli
Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, hefur gefið út dagatal tileinkað kvenheimspekingum. Dagatalið nefnist Dagbók 2014: Árið með heimspekingum. „Á annarri síðu hverrar opnu er dagatal vikunnar. Á hinni er lýsing á kvenheimspekingum úr sögu og samtíð,“ segir Sigríður. „Þetta er í senn gagnleg bók og svo miðlar hún fróðleik.“

Heimspekin hefur verið karlhverf grein að mati Sigríðar. „Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt fram á að fleiri konur en áður var talið lögðu stund á heimspeki alveg frá upphafi. Þær hafa „gleymst“ og þeirra heimspeki sjaldan virt eða kennd. Þessu þarf að breyta,“ segir Sigríður.

„Saga heimspeki þessara kvenna birtir öðruvísi heimspekisögu. Þeirra sýn á heiminn er svolítið öðruvísi. Hún fer oft á skjön við ráðandi strauma í heimspekisögunni. Við getum lært mikið af þeim.“

Í dagatalinu er fjallað um heimspekinga frá ýmsum tímaskeiðum. „Þar er til dæmis að finna umfjöllun um Christine af Pizan. Hún var uppi á fjórtándu og fimmtándu öld og hún skrifaði bók sem heitir Kvennaborgin. Í bókinni lýsir hún ímyndaðri borg þar sem fyrirfinnst ekki kvenfyrirlitning. Hún skrifaði bókina til að andæfa kvenfyrirlitningu í víðlesinni miðaldabók sem hét Skáldsagan um rósina, sem er ein allsherjar lýsing á því hversu vitlausar og siðlausar konur eru.“ Sigríður telur að þessar konur og sýn þeirra á heiminn eigi mikilvægt erindi við samtímann. „Þarna er að finna róttækar kenningar allt frá fornöld til samtímans.“

Allur ágóði af dagatalinu rennur til styrktar doktorsnemum í heimspeki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.