Skoðun

Rafrænt fríríki er varasöm hugmynd

Jón Kristinn Ragnarsson og Ólafur R. Rafnsson skrifar
Nokkur ríki heims hafa gert út á það að bjóða upp á skattaskjól og má nefna eyjarnar Cayman og Tortólu í því sambandi. Fyrir vikið hafa þessi ríki sætt harðri gagnrýni enda oft skuggalegar ástæður að baki því að fé er komið í skjól á fjarlægum eyjum.

Að undanförnu hefur átt sér stað hér á landi umræða um að gera Ísland að einhvers konar fríríki internetsins. Það er ástæða til að staldra við og íhuga hvað það þýðir í raun. Er hugsanlega sú hætta til staðar að við verðum þekkt sem staðurinn þar sem óhreini þvottur netsins verður geymdur?

Sú röksemd er ekki úr lausu lofti gripin. Nýlega aðstoðaði íslenska lögreglan bandarísku alríkislögregluna við að loka Silkislóðinni, vefsíðu sem starfaði sem markaðstorg með eiturlyf, leigumorðingja og annað misjafnt, en sú vefsíða var vistuð á Íslandi. Annað dæmi er heimasíðan The Pirate Bay sem er deilistöð fyrir höfundarréttarvarið efni en sú síða hefur verið á flótta um allan heim í nokkurn tíma eftir að hafa verið gerð brottræk frá heimalandi sínu Svíþjóð. Tilraunir voru gerðar til að tengja Pirate Bay og Ísland föstum böndum, meðal annars með að notast við .is endingu fyrir síðuna.

Þeir sem talað hafa fyrir Íslandi sem fríríki internetsins segjast berjast fyrir réttindum almennings til upplýsinga og vilja til dæmis gera það eins auðvelt og mögulegt er fyrir fréttamenn og uppljóstrara að koma upplýsingum til almennings. Hins vegar hefur verið rætt um Ísland sem miðstöð fyrir upplýsingar og skiptir hugsanlega engu máli hvort viðkomandi viðskiptavinur sé að geyma einhvern óþverra, svo lengi sem viðkomandi borgar reikninginn. Hafa hér hugsanlega blandast saman beinir markaðshagsmunir og háleitari hugmyndir um tjáningarfrelsi?

Þroskastig ekki mikið

Finna má ýmsa vankanta á regluumhverfi netsins á Íslandi og það er ekki fyrr en í seinni tíð, þegar íslensk stjórnvöld virðast hafa áttað sig á mikilvægi þessa málaflokks, sem tekið hefur verið á þeim málum að einhverju marki. Þroskastig Íslands í netmálum er þó enn ekki mikið, sem setur okkar litla land frekar í annan eða þriðja flokk. Það eru flokkar þeirra ríkja sem standa ekki nægilega vel að regluverki internetsins, en sum hver eru samt sem áður að segja öðrum hvernig þeirra málum skuli háttað í þessum efnum.

Það myndi kalla á hörð alþjóðleg viðbrögð ef Íslendingar tækju að sér að vista efni algjörlega óháð því hvað um er að ræða. Hvað með gögn er tengjast peningaþvætti, barnaníðingum eða viðskiptum með eiturlyf? Dettur einhverjum í hug að það yrði látið óáreitt ef Ísland skilgreindi sig sem rafrænt fríríki slíkra gagna?

Hér er ástæða til að staldra við. Það að berjast fyrir því að Ísland verði fríríki á Internetinu með öllu sem því fylgir kann að vera sveipað rómantískum hetjuljóma. Þetta er hins vegar baráttumál sem myndi hafa slæmar afleiðingar í för með sér fyrir land og þjóð og er auk þess ekki það mikið hitamál fyrir þorra þjóðarinnar að það sé þess virði að hefja baráttuna. Stundum er betur heima setið. Þetta er eitt þeirra skipta.




Skoðun

Sjá meira


×