Skoðun

Á flótta undan eigin ákvörðunum

Júlíus Vífill Ingvarsson skrifar
Við sjálfstæðismenn í borgarstjórn höfum gagnrýnt harðlega áformaðar gjaldskrárhækkanir sem lagðar voru fram á borgarstjórnarfundi fyrir hálfum mánuði. Við höfum bent á að hækkanirnar myndu koma harðast niður á barnafjölskyldum og að þær væru í engu samræmi við verðlagsþróun.

Undir gagnrýni okkar var tekið á vettvangi landsmála og jafnframt hjá samtökum vinnuveitenda og launþega. Forseti ASÍ gekk svo langt að segja að gjaldskrárhækkanirnar væru algerlega galin aðgerð nú þegar viðkvæmar kjaraviðræður væru framundan. Hækkanirnar myndu bitna sérstaklega á einstæðum foreldrum og öryrkjum.

Á borgarráðsfundi í gær var tilkynnt að gjaldskrárhækkanirnar væru dregnar til baka. Því ber að fagna að borgarfulltrúar Besta flokks og Samfylkingar hafi áttað sig á hversu alvarlegar afleiðingar ákvarðanir þeirra myndu hafa á fjárhag heimilanna og efnahagslíf þjóðarinnar. Með þeim hefði verið ýtt undir verðbólgu og ófrið á vinnumarkaði með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Heiðarlegast hefði verið af borgarfulltrúum meirihlutans að stíga fram og viðurkenna mistök. Þess í stað er reynt að varpa ábyrgð yfir á þá sem hafa lagt sig fram við að ná sátt á vinnumarkaði. Nú þegar tekist hefur að beygja meirihlutann af leið sinni er reynt að slá ryki í augu fólks.

Spuni þess efnis að meirihlutinn sé að leggja sitt af mörkum til að liðka fyrir kjarasamningum er ekki trúverðugur. Meirihlutinn er á flótta undan eigin ákvörðunum og ekki í fyrsta skipti. Flaustursleg vinnubrögð í ráðhúsinu hafa skapað ólgu og óvissu.




Skoðun

Sjá meira


×