Skoðun

"Ég er sko vinur þinn“ - Göngum gegn einelti

Ármann Kr. Ólafsson skrifar
Í þriðja sinn verður dagurinn 8. nóvember helgaður baráttunni gegn einelti og í Kópavogi verður gengið gegn einelti í öllum skólahverfum bæjarins. Þetta er í fyrsta sinn sem bærinn tekur þátt í þessum táknræna baráttudegi með svo afgerandi hætti. Börn og unglingar frá öllum leikskólum, grunnskólum og félagsmiðstöðvum ætla að ganga stuttan spöl og halda á hvatningarspjöldum þar sem minnt verður á að einelti eigi aldrei að líðast. Að göngu lokinni verða ýmsar uppákomur í skólum bæjarins, þar sem m.a. verður sungið Disney-lagið: „Ég er sko vinur þinn.“ Tillaga mín um eineltisgönguna var lögð fram í sumar og var hún samþykkt einróma.

Markmiðið er að vekja athygli á skaðsemi eineltis og hvetja foreldra, börn og unglinga til þess að halda vöku sinni og hrekja þennan óvin á flótta. Rannsóknir sýna að einelti getur byrjað svo snemma sem í leikskóla og flest ef ekki öll vitum við um einstaklinga sem líða fyrir einelti í æsku. Við vitum líka að einelti getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Því er mikilvægt að vel sé haldið á þessum málum hjá sveitarfélögunum, ekki bara í grunnskólunum heldur líka í leikskólunum og félagmiðstöðvum.

Skólar í Kópavogi hafa á liðnum árum unnið markvisst gegn einelti og samþykktar hafa verið eineltisáætlanir fyrir grunnskóla og leikskóla. Sömuleiðis hefur verið samþykkt eineltisstefna fyrir starfsmenn bæjarins en þar má m.a. finna leiðbeiningar um það hvernig bregðast eigi við ef einelti kemur upp. Mikilvægt er að fylgja slíkum áætlunum eftir með forvörnum, fræðslu og upplýstri umræðu. Eineltisgangan í dag er liður í því.

Einelti er þó ekki bara bundið við skólana heldur þurfum við að vera meðvituð um að einelti getur birst hvar sem er í samfélaginu, á vinnustöðum, í félagsmiðstöðvum eða á sumarnámskeiðum svo dæmi séu nefnd. Síðast en ekki síst þurfum við þó sem foreldrar, forráðamenn, kennarar, bæjarstjórar eða aðrar fyrirmyndir að líta í eigin barm og huga að því hvers konar skilaboð við sendum til yngstu kynslóðarinnar.

Tökum öll höndum saman í dag og látum þennan dag vekja okkur til umhugsunar um gildi vináttu og jákvæðra samskipta.
Skoðun

Sjá meira


×