Innlent

Ólafur vísaði sýndarviðskiptum á bug

Freyr Bjarnason skrifar
Ólafur Ólafsson við aðalmeðferð í Al-Thani-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fremstir á myndinni eru Sigurður Einarsson og verjandi Ólafs, Þórólfur Jónsson.
Ólafur Ólafsson við aðalmeðferð í Al-Thani-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fremstir á myndinni eru Sigurður Einarsson og verjandi Ólafs, Þórólfur Jónsson. Fréttablaðið/Daníel
Aðalmeðferð í Al-Thani-málinu hélt áfram í gær. Ólafur Ólafsson, einn hinna ákærðu, gaf fyrstur manna skýrslu fyrir dómi og stóð skýrslutakan yfir í tvær klukkustundir.

„Tengsl mín má rekja aftur til sameiningar Búnaðarbanka og Kaupþings,“ sagði Ólafur um aðkomu sína að málinu.

Því næst lýsti hann viðskiptasambandinu á milli Kaupþings banka og Sjeiks Mohammes Al-Thani. Hann kynntist Al-Thani á skotveiðum á landareign lögmanns Al-Thani. Eftir það stofnuðu þeir sjóðinn Choice Stay Limited sem ætlaði að fara í margvíslegar fjárfestingar, meðal annars í París og í Íran.

Að sögn Ólafs þótti Kaupþingi á þessum tíma áhugavert að eiga í viðskiptum við Al-Thani. „Hreiðar lýsti yfir miklum áhuga á samstarfi,“ sagði hann og á við Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings.

Ákveðið var að Al-Thani myndi kaupa 5,01 prósents hlut í Kaupþingi í lok september 2008. Kaupþing fjármagnaði kaupin að fullu en Al-Thani skrifaði undir 12,5 milljarða króna sjálfskuldarábyrgð. Samkvæmt Ólafi var það hugmynd Hreiðars Más að nota ábyrgð hans.

Saksóknari taldi að þarna hafi verið um sýndarviðskipti að ræða til að blekkja markaðinn og styrkja stöðu Kaupþings. Því hafnaði Ólafur. Hann sagðist ekki hrifinn af orðinu „sýndarviðskipti“. „Það er skelfilegt að sitja undir áburði um sýndarviðskipti,“ sagði hann.

Ólafur hafði milligöngu um kaupin á hlutunum í Kaupþingi í gegnum félag sitt Gerland, sem var í eigu Choice Stay Limited. Ólafur sagði að fjármögnunin hefði verið áætluð til skamms tíma og hann ekki átt að njóta neins hagnaðar af viðskiptunum. Hann hafi ekki séð neina áhættu fyrir Kaupþing samfara viðskiptunum og taldi þau góð fyrir bankann.

Saksóknari spurði Ólaf nokkrum sinnum að því hvers vegna hann hefði ákveðið að gerast milliliður um viðskiptin ef hann ætlaði ekki að hagnast á þeim og sagði hann það aðeins hafa verið vegna fyrri tengsla sinna við Al-Thani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×