Lífið

Hlakka til að heimsækja Ísland

Sara McMahon skrifar
Yo La Tengo kemur fram í Hörpu í kvöld í tengslum við Airwaves. Hljómsveitin hefur verið starfrækt frá árinu 1984.
Yo La Tengo kemur fram í Hörpu í kvöld í tengslum við Airwaves. Hljómsveitin hefur verið starfrækt frá árinu 1984. Nordicphotos/getty
Bandaríska indírokksveitin Yo La Tengo kemur fram í Hörpunni í kvöld í tengslum við Iceland Airwaves. Þetta er í fyrsta sinn sem tríóið kemur fram hér á landi.

Yo La Tengo var stofnuð árið 1984 af hjónunum Ira Kaplan og Georgia Hubley. Fyrsta platan þeirra, Ride the Tiger, leit dagsins ljós tveimur árum síðar. Árið 1993 gekk James McNew bassaleikari til liðs við sveitina og sama ár hóf Yo La Tengo samstarf við útgáfuna Matador.

Tríóið hefur lengi verið eftirlæti gagnrýnenda en ekki notið meginstraumsvinsælda, enda tónlistin oft á tíðum tilraunakennd, lágstemmd og innhverf. McNew veitti Fréttablaðinu viðtal í vikunni og segir hann fátt skemmtilegra en að vera hluti af hljómsveit.

Sveitin hefur verið starfrækt í nokkra áratugi, finnst ykkur enn jafn gaman að koma fram saman?

„Okkur finnst skemmtilegra að spila saman í dag en áður. Við erum orðnir svo góðir vinir eftir allan þennan tíma og svo er líka bara mjög gaman að vera í hljómsveit. Ég mæli með því! Maður fær tækifæri til að skoða heiminn í tengslum við vinnuna og það eru mikil forréttindi,“ segir hann.

Hvernig farið þið að þegar þið semjið tónlist?

„Flestar hugmyndirnar koma á „jam-æfingum“. Oftast heyrir eitthvert okkar laglínu eða takt í því sem við gerum í slíkum tímum og úr því verða lög. Þetta ferli tekur langan tíma og er alls ekki hagkvæmt, þeir hjá Matador myndu örugglega heldur kjósa að við mættum í hljóðver klukkan níu og værum þar til fimm á daginn og kláruðum plöturnar þannig,“ segir hann en bætir svo við: „Ég tek þetta til baka, þeir mundu örugglega ekki kjósa það fram yfir hitt. En til að svara spurningunni, þá erum við hljómsveit og við semjum efni okkar sem hljómsveit. Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi ferli.“

Þið eigið marga aðdáendur víða um heim en hafið ekki notið meginstraumsvinsælda, var það einhvern tímann draumurinn?

„Við erum fullkomlega sátt við að vera „underground“ hljómsveit. Okkar markmið var aldrei að öðlast heimsfrægð og ég hef aldrei hugsað með mér: „Ég vildi óska að við værum eins og Smashing Pumpkins.“ Okkur hefur gengið mjög vel, við vinnum við að vera í rokkbandi og í mínum augum er það velgengni.“

Þekktuð þið til Iceland Airwaves-hátíðarinnar áður?

„Já, ég heyrði fyrst af henni fyrir tveimur árum. Þegar okkur var svo tilkynnt að við ættum að koma fram á hátíðinni þá fór ég að fylgjast enn betur með henni.“

Tilkynnt? Ræður einhver annar för og þið bara hlýðið?

„Já, við gerum það sem okkur er sagt,“ segir McNew og hlær. „Við erum með umboðsmenn sem halda utan um allt skipulag fyrir okkur og sjá til þess að við mætum á réttan stað á réttum tíma. En þetta er auðvitað gert í samráði við okkur.“

Eruð þið spennt fyrir Íslandsheimsókninni?

„Ég verð að viðurkenna að ég veit svo gott sem ekkert um landið, sem gerir þetta mjög spennandi. Ég hlakka mikið til að skoða mig um í Reykjavík. Við fáum einn dag til að skoða okkur um áður en við höldum af stað til Frakklands. Ísland er fyrsta stoppið í tónleikaferðalagi okkar,“ segir hann að lokum.

Yo La Tengo kemur fram í Silfurbergi klukkan 23.30 í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.