Mikill meirihluti landsmanna er andvígur því að sveitarfélögin úthluti trúfélögum ókeypis lóðum til að byggja trúarbyggingar samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar MMR.
Alls sögðust 71,3 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni mjög eða frekar andvíg úthlutun ókeypis lóða. Um 18,8 prósent sögðust hlutlaus en tíu prósent sögðust frekar eða mjög fylgjandi því að trúfélög fái ókeypis lóðir.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir það lengi hafa verið stefnu sveitarfélaganna að afnema hvers kyns undanþágur.
„Ég heyrði fréttirnar af þessari könnun og niðurstöðurnar komu mér ekkert á óvart. Bæði hefur viðhorf til svona undanþága breyst og svo er hitt að trúfélög eru umdeildari í dag en þau voru hér áður,“ segir Halldór.
Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru kirkjur og bænahús skráðra trúfélaga undanþegin fasteignaskatti. Halldór segir að slíkt hafi einnig átt við um íslenska ríkið en þar hafi orðið breyting á.
„Fyrir nokkrum árum borgaði ríkið ekki fasteignaskatt af sínum eignum nema að litlu leyti. Framtíðarmúsíkin er að útrýma þessum undanþágum,“ segir Halldór.
Lengi viljað útrýma öllum undanþágum
Elimar Hauksson skrifar
