Innlent

Íbúar vilja Björgun úr hverfinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Bryggjuhverfisins vilja losna við "plássfreka og mengandi“ starfsemi Björgunar úr hverfinu.
Íbúar Bryggjuhverfisins vilja losna við "plássfreka og mengandi“ starfsemi Björgunar úr hverfinu. Mynd/Stefán
Stjórn Bryggjuráðs, íbúasamtaka Bryggjuhverfisins við Grafarvog mun í dag afhenda Jóni Gnarr borgarstjóra undirskriftalista íbúa hverfisins, þar sem borgaryfirvöld og fyrirtækið Björgun eru hvött til að semja sem fyrst um flutning fyrirtækisins úr Bryggjuhverfinu. Tveir þriðju íbúa sem náð hafa kosningaaldri hafa skrifað undir áskorunina.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir frá því að Björgun hafi haft frumkvæði að því að útbúa bryggjuhverfi við Grafarvog árið 1998 og alltaf hafi staðið til að fyrirtækið færi fljótlega með starfsemi sína úr hverfinu. Nú fimmtán árum síðar sé fyrirtækið enn með plássfreka og mengandi starfsemi.

„Öll loforð og fyrirheit sem íbúum hafa verið gefin um flutning fyrirtækisins hafa verið svikin um langt árabil,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að nú hafi skipulagsráð Reykjavíkurborgar stungið upp á flutningi starfsemi Björgunar yfir í Sundahöfn til miðlangs tíma en Björgun vilji aftur á móti ekki færa sig um set nema að fyrirtækið fái staðsetningu til langs tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×