Lífið

Til N-Ameríku í samstarfi við Disney

Freyr Bjarnason skrifar
Jón Axel Ólafsson hjá Eddu er mjög spenntur fyrir samstarfinu við Disney.
Jón Axel Ólafsson hjá Eddu er mjög spenntur fyrir samstarfinu við Disney.
„Við teljum að þetta sé tækifæri sem íslensk útgáfufyrirtæki fái ekki oft,“ segir Jón Axel Ólafsson, útgefandi og stjórnarformaður Eddu útgáfu.

Bandaríska stórfyrirtækið Disney hefur beðið Eddu um að koma að útgáfu á nokkrum vörulínum sem tengjast bæði kvikmyndum og öðrum vöruflokkum. Edda verður skilgreind sem lífsstíls-útgefandi Disney í Norður-Ameríku en markaðurinn í Bandaríkjunum og Kanada telur um fjögur hundruð milljónir manna.

„Ef þessar áætlanir ganga eftir, sem ég geri ráð fyrir, munum við bera ábyrgð á efni sem er ekki eingöngu ætlað börnum heldur fjölskyldum og fullorðnum líka. Þetta eru verkefni sem snúa að mat, grænum lífsstíl, betra lífi, samskiptum, náttúru og fræðsluefni,“ segir Jón Axel, sem er að sjálfsögðu spenntur fyrir samstarfinu.

Hann segir Eddu hafa unnið í því síðastliðið eitt og hálft ár að stækka markaðssvæði sitt. „Við ákváðum að reyna að finna ný tækifæri undir Disney-vörumerkinu. Það varð úr að við skoðuðum tækifæri sem eru að gefast í Bandaríkjunum og við höfum þróað vörumerki sem er sérstaklega ætlað fyrir þann markað.“

Edda útgáfa hefur átt í viðskiptasambandi við Disney í Skandinavíu í þrjátíu ár. Boltinn fór að rúlla þegar fyrirtækið hóf útgáfu á matreiðslubókum Disney árið 2010 sem hafa selst í um sextíu þúsund eintökum. Þær bækur eru framleiddar á Íslandi og tengjast ekki Disney í Bandaríkjunum nema að nafninu til. „Það eru ekkert mjög margir í Bandaríkjunum sem hafa leyfi til að framleiða Disney-vörur fyrir Bandaríkin. Við erum svo heppin að fá tækifæri til að vinna með þetta vörumerki þar en til þess höfum við þurft að fara í gegnum nálarauga Disney-samsteypunnar,“ segir hann.

Spurður hvers virði hinn væntanlegi samningur við Disney sé, segir Jón Axel erfitt að leggja mat á slíkt. „Við erum að leggja upp í langferð. Markmiðið er ekki að setja upp stórar skrifstofur í Bandaríkjunum heldur nýta það frábæra fólk sem við erum með hér til að vinna þessi verkefni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.