Lífið

Renndi hýru auga til starfs Loga Bergmanns

Sara McMahon skrifar
Björn Bragi Arnarsson tekur við hlutverki spyrils í spurningaþáttunum Gettu betur á nýju ári.
Björn Bragi Arnarsson tekur við hlutverki spyrils í spurningaþáttunum Gettu betur á nýju ári. Fréttablaðið/Stefán
„Ég hef horft á þennan þátt alla mína barnæsku, ég horfði meira að segja á hann þegar ég var of ungur til að skilja hvað var í gangi,“ segir sjónvarpsmaðurinn Björn Bragi Arnarsson sem tekur við hlutverki spyrils í spurningaþætti framhaldsskólanna, Gettu betur, í byrjun næsta árs. Þættirnir verða sem áður sýndir í Sjónvarpinu.

Björn Bragi er ekki alveg ókunnugur þátttöku í spurningaþættinum því hann var í sigurliði Verslunarskóla Íslands árið 2004. „Það verður gaman að fá að sitja hinum megin við borðið í þetta sinn. Þegar ég keppti fyrir Versló var Logi Bergmann í hlutverki spyrils og ég viðurkenni að ég renndi hýru auga til starfs hans. Það hafa margir góðir gegnt þessu hlutverki og það er mér mikill heiður að fá að spreyta mig á því,“ segir Björn Bragi. Hann fetar í fótspor ekki ómerkara fólks en Hermanns Gunnarssonar, Ómars Ragnarssonar, Loga Bergmanns, Evu Maríu Jónsdóttur, Sigmars Guðmundssonar og Eddu Hermannsdóttur, dóttur Hemma.

Björn Bragi stýrði áður sjónvarpsþáttunum Týnda kynslóðin og Bara grín á Stöð 2 við góðan orðstír. Aðspurður segist hann kveðja gamla vinnustað sinn með söknuði þótt hann hlakki einnig til að hefja nýtt ár á nýjum vinnustað. „Ég vona að mér verði vel tekið á nýja vinnustaðnum. Vonandi verð ég ekki látinn ganga í gegnum einhvers konar busun,“ segir hann að lokum í gamansömum tón.MR sigurstranglegast

Gettu betur var fyrst haldin árið 1986 og hefur farið fram árlega síðan þá. Keppnin hefur verið einn vinsælasti dagskrárliður Ríkisútvarpsins frá upphafi.

Forkeppnin hefst í janúar ár hvert og fer hún fram í útvarpi. Að henni lokinni fara átta liða úrslit fram í sjónvarpssal. Árið 2009 var metár í sögu keppninnar en þá tók alls 31 skóli þátt. Menntaskólinn í Reykjavík er sá sigursælasti frá upphafi, með 18 sigra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.