Innlent

Tíu næturverðir vakta 400 þjónustuíbúðir aldraðra

Valur Grettisson skrifar
Nú bíða tæplega 270 aldraðir eftir að komast í þjónustuíbúð á vegum Reykjavíkurborgar.
Nú bíða tæplega 270 aldraðir eftir að komast í þjónustuíbúð á vegum Reykjavíkurborgar.
Tíu manns samtals vakta 400 þjónustuíbúðir á vegum Reykjavíkurborgar að næturlagi. Mikla athygli vakti um síðustu helgi þegar háaldraður maður lést af slysförum eftir að hafa farið úr íbúð sinni í þjónustukjarnanum við Norðurbrún án þess að nokkur yrði þess var.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru þjónustuíbúðakjarnar Reykjavíkurborgar sex: Norðurbrún, Furugerði, Dalbraut, Langahlíð, Vitatorg og Seljahlíð. Að auki er þjónustusamningur við Fróðengi þar sem Eir veitir þjónustu. Þar leigir borgin 21 íbúð. Seljahlíð hefur nokkra sérstöðu því þar er blanda af hjúkrunarheimili og þjónustuíbúðum. Alls eru um 400 þjónustuíbúðir á vegum borgarinnar þar sem á fimmta hundrað manns búa.

Mikil eftirspurn er eftir búsetu í þjónustuíbúðum aldraðra og 1. september voru 269 aldraðir á biðlista eftir þessu búsetuúræði.

Í hverjum þjónustukjarna er fólk á næturvakt sem á að sinna íbúunum. Verksvið þess er nokkuð mismunandi. Við Dalbraut eru tveir á næturvakt en einn í Furugerði og við Norðurbrún. Þeir sem sinna næturvörslu á þessum stöðum eiga að fara yfir ákveðin öryggisatriði á kvöldin og athuga að gluggar og hurðir séu lokuð í sameiginlegum rýmum. Þeir eiga að líta inn til íbúa sem eru taldir þurfa þess með og svara bjölluhringingum frá íbúum.

Þá eiga þeir að þrífa, sinna þvottum og taka til morgunverð fyrir þá íbúa sem það kjósa. Í Lönguhlíð er einn á næturvakt. Hann á að sinna innlitum til íbúa og fylgjast með umferð fólks inn og út úr húsinu. Íbúarnir eru með öryggishnappa í íbúðum sínum og það er hlutverk þess sem er á næturvakt að bregðast við kalli.

Einn sér um næturvörslu við Vitatorg. Hann sinnir öryggisvörslu gagnvart íbúum, hefur eftirlit með húseignum og svarar neyðarhringingum. Þá lítur hann inn til þeirra sem metnir eru hafa þörf fyrir næturinnlit, fer í eftirlitsferðir og hefur umsjón með eldvarnakerfi og útidyrum.

Við Seljahlíð eru 65 íbúðir. Af þeim hefur 20 verið breytt í hjúkrunarrými. Vegna þess að í Seljahlíð eru hjúkrunarrými eru fleiri sem sinna næturvörslu þar en á hinum stöðunum. Tveir eru á næturvakt um helgar en þrír virka daga. Þeir sem sinna næturvöktum við Seljahlíð eiga að sinna eftirlitsskyldu og sjá um umönnun þeirra sem þess þurfa. Í Fróðengi er 21 íbúð sem borgin leigir af Eir en alls eru 92 íbúðir þar og þar búa 114.

Einn sinnir næturvöktum þar fyrir allar íbúðirnar. Í öllum þjónustukjörnunum nema við Vitatorg eru öryggismyndavélar við allar útidyr. Fréttablaðið spurðist fyrir um það hjá borginni hvort til stæði að fjölga á næturvöktum í þjónustukjörnum á vegum borgarinnar en fékk það svar að engin áform væru um slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×