Innlent

Raki í húsnæði 20 prósenta Íslendinga

Valur Grettisson skrifar
Tengsl eru á milli rakaskemmda í húsnæði og heilsuvanda.
Tengsl eru á milli rakaskemmda í húsnæði og heilsuvanda. mynd/Sylgja Dögg sigurjónsdóttir
Um 20 prósent Íslendinga segjast vera með vatnsleka í híbýlum sínum en sjö prósent með sýnilega myglu eða skemmd gólfefni vegna raka.

Öndunarfæraeinkenni hjá þeim sem búa í rakaskemmdum híbýlum eru 30 til 50 prósentum algengari en hjá þeim sem ekki búa við raka. Þetta eru niðurstöður samnorrænnar rannsóknar vísindamanna sem gerð var árið 2000.

„Þetta var 15.500 manna úrtak og rannsóknin var hluti af könnun í Norður-Evrópu,“ segir María Gunnbjörnsdóttir, yfirlæknir á ofnæmisdeild Landspítalans. Hún er einn þeirra sérfræðinga sem taka þátt í málþingi um raka og myglu í byggingum á Grand Hótel í Reykjavík á morgun. María mun fjalla um tíðni rakaskemmda og tengsl við öndunarfæraeinkenni.

Tilgangur málþingsins er að efla vitund um málefnið, styrkja samvinnu fagaðila og hefja aðgerðir til þess að sporna við vandamálinu. Þeir sem standa að málþinginu eru Mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun, Samtök iðnaðarins, fagfélög innan byggingageirans og IceIAQ, þ.e. Íslandsdeild alþjóðlegra samtaka um heilnæmt inniloft.

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, formaður IceIAQ og sérfræðingur hjá Húsum & heilsu, segir Íslendinga vera að vakna til vitundar um vandann og þær afleiðingar sem hann getur haft í för með sér.

„Það er ekki því að kenna að við viljum ekki bregðast við þessu, heldur hefur upplýsingaflæðið ekki verið nóg. Við höfum bolmagn til að vera framarlega á þessu sviði en þurfum bara að sinna málefninu. Við erum ekki að reyna að finna sökudólga, heldur þurfum við að efla samvinnu og faglega umræðu á þessu sviði.“

María segir niðurstöður könnunarinnar hér á landi sambærilegar við niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið annars staðar. „Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir að tengsl séu á milli rakaskemmda í húsnæði og heilsuvanda.“

Hún bendir á að tengsl séu ekki það sama og orsakasamband. „Enn í dag höfum við ekki nóg í höndunum til að fullyrða að um orsakasamband sé að ræða þótt tengsl séu skýr milli raka og heilsuvanda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×