Innlent

Yfirlæknar og prófessorar óttast óbætanlegt tjón á Landspítalanum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Eftir langvarandi niðurskurð er lyflækningasvið Landspítala svo illa statt að það getur ekki risið undir hlutverki sínu að sögn yfirlækna og prófessora á sjúkrahúsinu.
Eftir langvarandi niðurskurð er lyflækningasvið Landspítala svo illa statt að það getur ekki risið undir hlutverki sínu að sögn yfirlækna og prófessora á sjúkrahúsinu. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ein meginstoðin í gangverki Landspítala, lyflækningasviðið, glímir nú við erfiðleika sem gætu hæglega valdið óbætanlegu tjóni ef ekki verður tafarlaust brugðist við með viðeigandi aðgerðum,“ segir í Fréttablaðsgrein 20 yfirlækna og prófessora á Landspítalanum.

Í greininni í Fréttablaðinu í dag er fjallað um það ófremdarástand sem ríkir á lyflækningasviði sjúkrahússins vegna langvarandi niðurskurðar og atgervisflótta almennra lækna og sérfræðinga.

„Staðan á lyflækningasviði er grafalvarleg og ástandið gæti haft keðjuverkandi áhrif á önnur svið sjúkrahússins sem einnig eiga undir högg að sækja,“ segja læknarnir. Nú þegar sé fækkun lækna í einstökum sérgreinum orðin grafalvarleg.

Þá er fjallað um trúnaðarbrest milli almennra lækna og stjórnenda spítalans og hversu mikið laun lækna hafa dregist aftur úr öðrum stéttum. Húsnæði Landspítalans sé úr sér gengið, starfsaðstaða ófullnægjandi og tækjakostur bágur. Læknarnir segja að skjótra aðgerða sé þörf ef ekki eigi illa að fara.

Lesa má greinina í heild sinni í Fréttablaðinu í dag og á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×