Lífið

„Mundi ekki eins mikið og ég vonaði“

Starri Freyr Jónsson skrifar
Nýr þáttur Sigga Hlö, Veistu hver ég var?, hóf göngu sína síðasta laugardag og sló heldur betur í gegn. Þar fær gleðigjafinn Siggi Hlö tvö lið í heimsókn sem keppa í léttri og skemmtilegri spurningakeppni um eitístímabilið.

Í næsta þætti mætast lið frá útvarpsstöðvunum Bylgjunni og Rás 2. Útvarpsmaðurinn góðkunni Ívar Guðmundsson fer fyrir liði Bylgjunnar en með honum eru Bragi Guðmundsson og Jóhann Örn Ólafsson. Ívar segir að það hafi verið mjög gaman að taka þátt í þættinum og ekki hafi verið síður skemmtilegt að hitta kollegana frá Rás 2.

„Þessi þáttur er skemmtilega settur upp og Siggi blandar saman ólíkum atriðum. Ég verð nú að viðurkenna að ég mundi ekki eins mikið og ég vonaðist eftir. Liðsfélagar mínir, Bragi og Jóhann, stóðu sig þó vel. Bragi er ótrúlega góður í að muna eftir öllu sem tengist þessu tímabili og Jóhann er frægur fyrir að vera skemmtilegur stuðbolti sem er með allt á hreinu sem viðkemur dansi.“

Á árunum 1980-1990 starfaði Ívar lengstum sem plötusnúður á ýmsum skemmtistöðum bæjarins. „Ég byrjaði að vinna sem plötusnúður 13 ára gamall í Fellahelli. Ég á eldri bróður og drakk diskótímabilið og eitístímabilið í mig í gegnum hann. Síðar hóf ég störf sem plötusnúður á fyrsta unglingaskemmtistaðnum hérlendis, Villta tryllta Villa. Það var mjög skemmtilegt tímabil en það var ekki fyrr en árið 1989 sem ég hóf störf í útvarpi á FM 957.“

Lið Rásar 2. Gunna Dís, Óli Palli og Doddi litli.Mynd/Gísli Berg
Ívar segir þetta hafa verið skemmtilegan tíma en að vissu leyti óvenjulegan því lítið var um frjálsar útvarpsstöðvar. 

„Í raun voru það diskótekin og dansstaðirnir sem áttu stærstan þátt í vinsældum laganna. Um svipað leyti kemur svo myndbandabylgjan og þar kemur tískan í gegn sem við sáum svo síðar á skemmtistöðum eins og Hollywood og Klúbbnum. Það var því mikil gerjun á þessum tíma en það voru ekki fjölmiðlar sem leiddu hana. Tónlistin var mjög fjölbreytt, popp, rokk og diskó, og margir staðir blönduðu þessu öllu saman.“

Sjálfur segist Ívar hafa verið alæta á tónlist á þessum tíma. „Ég var alls ekki fastur í einhverri einni tónlistarstefnu á þessum tíma. Ég hlustaði hins vegar mikið á Kanaútvarpið og reyndi að læra af því. Mér finnst tónlist þessa tímabils hafa elst misvel en margt efni lifa furðu góðu lífi. Auðvitað hefur ýmislegt elst illa, þá helst tölvupoppið sem var svolítið barn síns tíma. En það er svo skrítið hvernig þetta fer allt í hringi. Þegar ég byrjaði sem diskótekari komu fram lög sem voru endurgerðir á lögum frá 1960 en í dag erum við að fá endurgerðir af lögum frá 1980.“

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá brot úr síðasta þætti. Veistu hver ég var? er síðan aftur á dagskrá næsta laugardag á Stöð 2 kl. 19.40.

Siggi Hlö og aðstoðarmaður hans, dj Fox, fá góða gesti í heimsókn á laugardagskvöldum.Mynd/Gísli Berg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.