Skoðun

Lánasjóður, skuldir heimilanna og stytting náms til stúdentsprófs

Kristín Bjarnadóttir skrifar
Stór dægurmál eru á dagskrá á þessu síðsumri: Breytingar á skilyrðum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir lánum til ungmenna í námi, skuldamál heimilanna, sem enn er verið að greiða úr eftir kollsteypuna 2008, og stytting náms til stúdentsprófs. Þegar nánar er að gætt skarast þessi mál á ýmsa vegu.

Skilyrði til menntunar hafa breyst mikið á einum mannsaldri. Fyrir fjörutíu árum var algengast að unglingar færu að vinna eftir gagnfræðapróf við sautján ára aldur eða í starfsnám sem var lokið við tvítugsaldurinn. Þá tók við lífsbaráttan; starfsframinn og stofnun fjölskyldu. Hlutfallslega fáir fóru í framhaldsnám eftir tvítugsaldurinn og þá lá leiðin oft fyrr en síðar til útlanda.

Fjöldi þeirra sem hefur haldið áfram námi eftir tvítugt hefur margfaldast og valkostum hefur fjölgað. Við hóp unga fólksins hafa bæst skarar eldra fólks sem missti af því sem var áður aðeins fyrir fáa, fyrst stúdentsprófi og síðan fjölbreyttu háskólanámi, meistaranámi og doktorsnámi.

Nú er að mokast ofan af þeim kúfi og kominn tími til að staldra við og rifja upp.

Ólík framtíðaráform

Fyrir 1970 var ekki hægt að ljúka stúdentsprófi nema læra fimm erlend tungumál þótt á stærðfræðibraut væri. Menntaskólarnir hófust 1. október og sumarfrí nemenda var fjórir mánuðir. Talið var nauðsynlegt að nám til stúdentsprófs væri lengra en annars staðar á Norðurlöndum vegna þess að sumarfrí væru lengri og danskan væri aukreitis við annað málanám. Nú hefur skólaárið lengst um u.þ.b. 6 vikur á ári, en kröfur um tungumálanám hafa dregist saman. Kennslutíminn á þremur árum er tekinn að nálgast það sem gerðist á fjórum árum fyrir fjórum áratugum. Lengra sumarfrí og meira málanám er ekki lengur réttlæting fyrir því að nemendur ljúki almennu námi ári seinna en gerist annars staðar í OECD-löndum.

Vissulega er ekki hægt að kenna „allt“ á þremur námsárum nú fremur en á fjórum árum áður. Eftir þrjú ár í framhaldsskóla hafa nemendur lokið þrettán ára skólagöngu í fremur stöðluðu formi. Ungt fólk hefur ólík framtíðaráform og fjölbreytilegar þarfir og ætti að fá að snúa sér að sérhæfingu sinni þegar þarna er komið sögu. Ungmennin geta þá lært það sem þau þurfa til þess þar, ef til vill það sem á vantar frá því sem áður var á fjórða ári, en óþarfi er að láta alla taka allan pakkann, viljuga eða með þrautseigjuna eina að vopni.

Nemendur gætu þá lokið grunnháskólanámi, bakkalárnámi sem er eins konar sveinspróf, á þremur árum um 22 ára aldur. Margir gætu þá haldið út í atvinnulífið. Því yngri sem þeir eru þeim mun minni líkur eru á að þeir hafi stofnað fjölskyldu og þurfi á háum námslánum að halda.

Stöldrum við

Sannleikurinn er sá að margir þeir sem sitja í slæmri skuldastöðu skulda ekki aðeins húsnæðislán heldur einnig námslán. Fjöldi fólks á milli þrítugs og fimmtugs skuldar námslán sem næst ekki að greiða upp á starfsaldrinum með þeim 4% af tekjum sem endurgreiðslan nemur.

Í ýmsum löndum, s.s. Bretlandi, Bandaríkjum og á Norðurlöndum, þykir það vera að binda klafa á herðar ungs fólks að það taki námslán fyrir öllum námskostnaði eins og hefur tíðkast hérlendis. Þar er fólk að jafnaði ungt og óbundið í upphafsnámi í háskóla, en þeir sem halda áfram í meistara- eða doktorsnám geta sótt um styrki og/eða fengið námstengda vinnu.

Við ættum að staldra við og hugsa málið. Þorri fólks ætti að geta lokið starfsundirbúningi óbundið af skyldum gagnvart fjölskyldu ef áhersla væri lögð á að stytta námstíma til stúdentsprófs og styðja nemendur til að ljúka framhaldsskóla á eðlilegum tíma. Jafnvel væri ekki ólíklegt að svonefndur námsleiði minnkaði ef námið styttist og nemendur sæju fram á lok innan fyrirsjáanlegs tíma. Langtímaskyn unglinga er annað en fullorðinna.

Starfsárin ásamt stofnun heimilis og fjölskyldu tækju síðan við eftir grunnnám eða starfsnám á þriðja skólastigi. Margir eru að glíma við þetta allt í einu eins og nú háttar til: námið, fjölskylduna og barnauppeldið, og svo skuldamálin vegna heimilis utan um fjölskylduna. Skyldi álagið ekki vera mikið á fjölskyldulífið, samveru fjölskyldunnar og makatengslin? Gæti stytting náms til stúdentsprófs verið liður í að stokka málin upp og hjálpa fólki til að njóta betur allra tímaskeiðanna í lífinu: undirbúnings- og námsáranna, starfsáranna og efri áranna?




Skoðun

Sjá meira


×