Lífið

Skóhönnuður ársins kynnti nýja skólínu

Marín Manda skrifar
Halldóra Eydís Jónsdóttir skóhönnuður hannar skó úr góðu íslensku hráefni.
Halldóra Eydís Jónsdóttir skóhönnuður hannar skó úr góðu íslensku hráefni.
Halldóra Eydís Jónsdóttir skóhönnuður hlaut verðlaunin hönnuður ársins á handverkshátíðinni Arctic handcraft and design þegar hún kynnti nýja skólínu.

"Hráefnið sem ég leitast við að nota er náttúruvænt og íslenskt, eins og hraunkristallar, roð, hrosshár og íslenskt skinn. Ég nota oft hráefni sem fólk kannski áttar sig ekki á að hægt sé að gera mikið fallegt úr,“ segir Halldóra Eydís Jónsdóttir skóhönnuður, sem kosin var hönnuður ársins á handverkshátíðinni Arctic handcraft and design á Hrafnagili í síðustu viku.

„Það eru mjög margir listamenn sem hafa tekið þátt í þessari hátíð en ég fékk verðlaunin hönnuður ársins. Mér leið pínulítið eins og fegurðardrottningu þegar þetta var tilkynnt því þetta kom mér mjög á óvart. Ég fékk meira að segja flottan sérsmíðaðan verðlaunagrip.“

Stofnaði strax fyrirtæki

Halldóra Eydís lærði skóhönnun í London College of fashion og tók BA-próf í skóhönnun og smíði. Hún útskrifaðist árið 2010 og stofnaði fyrirtækið sitt, Halldora, strax árið 2011. 

„Draumurinn var alltaf að gera mitt eigið. Lokaverkefnið mitt var einmitt að útbúa fyrirtæki og þegar ég var búin að gera markaðsrannsóknina þá sá ég bara að þetta var mögulegt. 

Svo kynntist ég fljótlega lítilli fjölskyldu í mjög persónulegri verksmiðju sem saumar skóna fyrir mig í Kína.“ Halldóra segist vera að vinna að því að flytja framleiðsluna sína til Ítalíu því vegalengdin til Kína sé svo mikil.

Skórnir bera nöfn úr móðurfjölskyldu Halldóru en það eru Snædís, Eydís, Dagný og Ólöf.
Aðspurð segist hún hafa fengið góðar móttökur erlendis en að ekki sé mögulegt að vera fær á öllum sviðum og því væri óskandi að fá fagaðila í markaðsmálum í samvinnu á erlendum markaði.

Nýja skólínan 

„Ég ákvað að bæta við handgerðum fylgihlutum um jólin en innblásturinn er íslensk náttúra og gamlar hefðir. Það hefur einnig verið svo mikil eftirspurn eftir stærðum og því hef ég verið að kynna nýja skólínu í stærðum 36-43.

Þetta er hálsmen sem hægt er að snúa við en þá er það gull- eða silfur litað.
Þetta eru ökklahá stígvél úr hrosshúð með mjög góðum vetrarsóla sem ganga bæði sem hversdags og spari. Ég hef verið að vanda miög við að gera hælinn svo maður finni ekki eins mikið fyrir honum,“ segir Halldóra Eydís og bætir við: 

„Ég nefni skótýpuna kvenmannsnöfnum úr móðurfjölskyldunni. Það er kannski eitthvað sem ég sé í hönnuninni sem ég tengi við konurnar sem ég þekki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.