Skoðun

"Skoðanir“ á hinsegin fólki

Anna Pála Sverrisdóttir og formaður Samtakanna 78. skrifa
Undanfarna daga hafa íslenskir fjölmiðlar fjallað mikið um málefni hinsegin fólks, þ.e. samkynhneigðs, tvíkynhneigðs og transfólks. Það er frábært að fá umfjöllun, ekki síst af því lengi vel var þöggun ein helsta birtingarmynd mismununar gegn hinsegin fólki.

Stórfrétt síðustu daga er sú að enn fjölmennti íslenskur almenningur til að horfa á Gleðigönguna og sýna mikilvægan stuðning í verki við réttindi hinsegin fólks.

Mikilli umfjöllun fylgja gjarnan skoðanaskipti. Það hryggir mig hins vegar að of mikil orka og athygli undanfarna daga hefur farið í að veita þeim „skoðunum“ vængi sem byggja í grunninn á fyrirlitningu og fordómum gegn hinsegin fólki. Tjáningarfrelsi og lýðræðisleg umræða snýst nefnilega ekki um það að hver sem er megi slá hverju sem er fram um aðrar manneskjur, án ábyrgðar.

Mannréttindum einnar manneskju á borð við tjáningarfrelsi og trúfrelsi eru almenn takmörk sett við það að valta yfir mannréttindi annarrar, svo sem með því að niðurlægja eða hvetja til mismununar gagnvart henni vegna kynvitundar eða kynhneigðar.

Fjölmiðlar og annað fólk sem stýrir opinberri umræðu þarf alltaf að hafa þetta í huga. Þeirra er valdið til að ákveða hvaða umræða fær pláss og hversu mikið af órökstuddri og fordómafullri orðræðu er miðlað.

Svo ég taki dæmi um manneskju sem ber mikla ábyrgð í opinberri umræðu vil ég nefna biskup Íslands. Eftir því sem ég best veit kemur enn til greina að hún taki þátt í samkomu þar sem aðalstjarnan er bandarískur predikari sem hefur það að gróðalind að miðla hatursáróðri um hinsegin fólk. Biskup segist sjálf annarrar skoðunar en predikarinn en hefur látið í ljósi að hún telji best að nokkurs konar samtal fari fram.

Um leið og ég þakka henni kærlega stuðning við málstað hinsegin fólks vil ég spyrja hvort sá stuðningur mætti ekki vera afdráttarlausari, því varla léti hún bjóða sér upp á að taka þátt í samtali sem byggði á skoðun gagnaðilans um að svart fólk sé óæðra hvítu. Við eigum að vera komin lengra en það.

Svo ég taki annað lítið dæmi má nefna að stjórnendur þáttarins Reykjavík síðdegis leyfðu Gylfa Ægissyni í fyrradag að tala endurtekið um kynferðisofbeldi af hálfu karlmanna sem hann og vinir hans hefðu orðið eða næstum orðið fyrir. Efni samtalsins átti þó að vera Gleðigangan. Kynferðisofbeldi er alltaf grafalvarlegt en tengist Gleðigöngunni eða baráttu hinsegin fólks ekki neitt.

Ég gæti tekið ýmis fleiri dæmi um særandi og óþarfan fréttaflutning fjölmiðla, sem byggir á vanhugsuðum sleggjudómum í stöðuuppfærslum og athugasemdum Gylfa og fleiri aðila að undanförnu. Af hverju á þetta svona mikið erindi í umræðuna?
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.