Skoðun

Hræðsluáróðri svarað

Margrét Jónsdóttir skrifar
Nú er fegursta tíma ársins að ljúka þá er hin himinbláa lúpína hefur lokið blómgun. En það er huggun harmi gegn að breiður hennar munu standa grænar langt fram á vetur.

Það er nú að verða árviss atburður að í miðjum blómatíma lúpínunnar hefur upp raust sína Hjörleifur nokkur Guttormsson í þeim tilgangi að telja fólki trú um að þessi „hræðilega“ jurt sé ein „mesta ógnin“ sem nú steðji að okkar gróðurvana landi. En sem betur fer eru mjög fáir sem taka mark á honum, en þó of margir. Þar á meðal eru VG-menn sem, eins og enn er í fersku minni, hlupu til eftir uppskriftum hans og létu Náttúrufræðistofnun og Landgræðsluna gefa út bækling um skaðsemi lúpínu, kjörvells og fleiri duglegra jurta.

Í grein sem hann skrifaði í Mbl. 18. júlí harmar hann að hún skuli valta yfir mela og götótta móa, upp á klettabelti og yfir auðnir landsins, jafnvel áreyrar! Verst þykir honum að hugsa til þess að lúpínan gæti hugsanlega grætt upp megnið af landinu fyrir lok þessarar aldar!

Nóg af mistökum

Hvað er að manni sem fær fólk til að hatast við eina frábærustu jurt jarðar sem hugsanlega gæti grætt upp okkar íslensku eyðimörk sem er um 75% af landinu. Ekki bara það, heldur verður lífmassi hennar að gróðurríkri mold þar sem aðrar plöntur koma svo til með að nema land er fram líða stundir. Já, hvað er hægt að segja við hann Hjörleif, sem segir að lúpínan sé „mesta ógnin“ sem steðji að þessu ofbitna og gróðurvana landi? Að hann skuli bara fara að eitra, rétt eins og VG-systir hans gerði? Nei, auðvitað ekki. Nóg komið af svoleiðis mistökum.

En við náttúrufræðinginn vil ég segja þetta: Leyfum landinu að gróa sára sinna með lúpínunni ef það er bara hægt. Lífið heldur áfram eftir að við förum héðan og er fram líða stundir kemur að þeim tíma að lúpínan verður í útrýmingarhættu eins og staða hennar er nú í heimalandi hennar, Alaska.

Hættu að hafa þessar áhyggjur og komdu í félagsskap sem heitir „Vinir lúpínunnar“. Þar getur þú fræðst um gagnsemi hennar og annarra „ágengra“ jurta. Græðum landið!




Skoðun

Sjá meira


×