Skoðun

Forsetningin á sækir heldur betur á

Halldór Þorsteinsson skrifar
Það virðist hafa farið mjög í vöxt að undanförnu að menn noti forsetninguna á þar sem færi mun betur að nota forsetninguna til, að mínu viti. Það er engu líkara en að nútímafólk hér á landi forðist þá síðarnefndu eins og heitan eldinn. Það er ekið á Akranes, Seyðisfjörð, Ísafjörð og Akureyri svo að örfá dæmi séu nefnd. Ég ek hins vegar til Akureyrar og þegar þangað er komið ek ég á Akureyri, mínum gamla heimabæ.

Væri ekki þessum bögubósum jafnvel trúandi til þess að taka upp á þeim fjanda að nota þessa eftirlætisforsetningu sína um t.a.m. flugferðir til annarra landa og segja að fljúga á Róm, London, París og New York. Ætli að íbúar síðastnefndu borgarinnar séu ekki orðnir fullsaddir á því að flogið sé á borgina þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×