Skoðun

Nauðgun er svo hrikalega fyndin

Jóhanna Ýr Jónsdóttir skrifar
Hva? Þetta er bara grín!

Þetta fá margir að heyra þegar þeir segja að þeim finnist nauðgunarbrandarar ekkert fyndnir (þ.e. þessir fáu sem þora að segja það upphátt).

Hvernig er þetta fyndið? Hvað við þessa gjörð, frá byrjun glæpsins til enda hans, er fyndið? Er það þegar einhver eltir einstaklinginn og bíður eftir að ná færi, eins og rándýr? Er það fyndið? Eða er það þegar fórnarlambinu er náð, því er hent einhvers staðar niður, haldið gegn vilja sínum, og það er byrjað að rífa utan af því fötin? Er það á þeim tímapunkti sem ég á að hlæja að frásögninni? Eða er það þegar einhver treður einhverju inn í líkama annars einstaklings – gegn vilja hans – og brýtur á honum, sem við eigum að hlæja? Eða er það þegar fórnarlambinu er hótað, sagt að halda kjafti, „þú vilt þetta innst inni“, sem húmorinn birtist?

Getur einhver útskýrt fyrir okkur hinum, þessum „húmorslausu“, hvenær við nákvæmlega eigum að hlæja?

Þolendum finnst brandararnir slappir

Það eru góðar líkur á því að þú þekkir einstakling sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi. Kannski veistu það, kannski ekki. Kynferðisofbeldi er svo svimandi algengara en flestir gera sér grein fyrir. Ég þekki því miður nokkra einstaklinga sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þeim finnst svona brandarar svolítið slappir. Þessir einstaklingar upplifðu ýmis einkenni áfallastreituröskunar í kjölfarið, eiga oft erfitt með að treysta annarri manneskju aftur, eru hræddir við einveru (eða hóp af fólki), fá martraðir, eiga jafnvel erfitt með að njóta kynlífs.

Þú veist, af því þetta er svo hrikalega fyndið, manstu?

Vandamálið við nauðgunarbrandara er m.a. þetta. Nauðgarar sem heyra þig segja slíkan brandara eða bara sjá þig hlæja að honum, gætu litið á það sem þitt samþykki: „Sko, þetta er allt í lagi, þau bara þora ekki að viðurkenna það.“

Næst þegar þú segir nauðgunarbrandara, eða hlærð að honum, þarftu þá ekki að vera alveg viss um að enginn, enginn, í kringum þig hugsi sem svo að þú sért að samþykkja þennan glæp? Þá hugsar þú auðvitað með þér: „Hva, ég þekki enga nauðgara!“

En veistu það fyrir víst?

Það er ekkert fyndið við nauðgun. Við vitum það öll. Verum óhrædd við að segja það upphátt.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.