Skoðun

Forsíðan í Hádegismóum

Baldur Þórhallsson skrifar
Sundrung innan raða stjórnarflokkanna, og þá einkum innan Vinstri grænna, er ef til vill helsta ástæða þess afhroðs sem þeir guldu í síðustu alþingiskosningum, þó að fjölmargar aðrar ástæður komi einnig við sögu. Enginn virðist sjá sér hag í því að rifja upp þá ógæfu sem fylgdi því að standa í sífelldri kattasmölun.

Skoðanakannanir sýna að kjósendur telja að flokkarnir hafi ekki framfylgt mikilvægum stefnumálum. Klofningur og ágreiningur voru meginástæður þess. Í kjölfarið misstu flokkarnir trúverðugleika, sem er forsenda tiltrúar kjósenda á stjórnmálamönnum. Stöðugar skylmingar þingmanna leiddu til mannfalls í eigin röðum og gengu nærri grasrótinni. Þetta yfirskyggði þann mikla árangur sem náðist.

Ágreiningur innan flokkanna gerði það að verkum að ekki var hægt að ljúka við endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu og koma á skikkanlegu auðlindagjaldi. Viðræður við ESB voru í hægagangi vegna framgöngu einstakra ráðherra og þegar Samfylkingin féllst formlega á að hægja á þeim var endanlega gert út um trúverðugleika flokksins.

Stóriðjubrölt Vinstri grænna varð heldur ekki til þess að auka trúverðugleika þeirra. Icesave-samningarnir voru eitt samfellt klúður sem klauf flokkana og ekki var einu sinni talað fyrir þeim þegar á reyndi. Erfitt var að ná saman um skuldamál heimilanna. Landsdómsmálið kristallaði mismunandi sýn á uppgjörið við hrunið. Enga sameiginlega sýn var heldur að finna um inntak nýrrar stjórnarskrár né hvort sverfa ætti til stáls í málinu. Ekkert lát var á togstreitu þingmanna vegna kjördæmapots. Samfylkingunni var refsað harkalega fyrir að hafa hvorki tekist að koma helstu stefnumálum sínum í framkvæmd með Vinstri grænum né Sjálfstæðisflokknum.

Klofningur innan þingflokks Vinstri grænna gerði hann nær óstjórntækan. Stór hluti hans yfirgaf flokkinn og Samfylkingin klofnaði einnig. Þingmennirnir létu fjölmiðla trekkja sig upp líkt og spiladósir og dönsuðu í hringi í kringum sjálfa sig. Það virðist vera mikið gert og mörgu fórnað til að komast á forsíðuna í Hádegismóum. Vinstrimönnum tókst með einstökum hætti, enn eina ferðina, að grafa undan sjálfum sér og eigin trúverðugleika.




Skoðun

Sjá meira


×