Skoðun

Helgi mættur á slysstað

Guðmundur Árnason skrifar
Helgi Magnússon (framkvæmdastjóri) skrifaði athyglisverða grein í Fréttablaðið laugardaginn 8. júní þar sem hann finnur fráfarandi ríkisstjórn allt til foráttu. Tónninn er strax sleginn með því að draga þá ályktun að jákvæðar umsagnir erlendra matsaðila á endurreisn íslensks efnahags á síðasta kjörtímabili séu marklausar vegna þess að stjórnin fékk slæma útkomu í alþingiskosningunum í apríl – sem verður að teljast mögnuð röksemdafærsla.

Helgi lætur ekki þar við sitja og kvartar sáran undan því að hafa þurft að láta mistök fráfarandi stjórnar yfir sig ganga og er sannfærður um að sagan muni fara hörðum höndum um það vonda fólk sem tók við stjórn landsins eftir hrun – og sem nú reyni að falsa söguna til að fegra eigin ímynd. Þar á eftir fylgir herhvöt til nýrra stjórnvalda um að „taka til óspilltra málanna hratt og markvisst“, sem vekur óneitanlega hugrenningatengsl við ekki svo löngu liðna atburði.

Eftir því sem á líður færist Helgi í aukana og minnir þar um margt á krummana á Hrafnaþingi ÍNN sem jafnan magnast upp í aðdáun hver á annars skoðun eftir því sem á þingið líður. „Ferill síðustu ríkisstjórnar var slys. Nú er björgunarliðið komið á slysstað og þá verður að láta hendur standa fram úr ermum“. Þar höfum við það. Hér er öllu snúið á hvolf því Helgi virðist engan greinarmun gera á „slysinu“ og „björgunarleiðangrinum“ vegna slyssins.

Því næst er komið að merkilegri upptalningu; lítill hagvöxtur, mikið atvinnuleysi, litlar fjárfestingar, skattpíning, landflótti og illdeilur. Að ógleymdri þeirri ósvífni að láta sér detta í hug að ætla að rukka sjávarútveginn fyrir aðgang að auðlindinni eða að ætlast til að stóriðjan greiði markaðsverð fyrir raforkuna.

Sleginn blindu?

En getur verið að Helgi sé sleginn blindu vegna andúðar sinnar á fráfarandi stjórn? Lítum á nokkrar fyrirsagnir í Fréttablaðinu og hjá Greiningu Íslandsbanka í apríl og maí: Kaupmáttur eykst; Verðbólga hjaðnar; Krónan styrkist; Dregur úr atvinnuleysi; Staða jafnréttismála hvergi betri í heiminum en á Íslandi; Kaupmáttur hefur tekið við sér;

OECD telur að aðhald peningastefnunnar og bætt staða krónunnar leiði áfram til lægri verðbólgu og minna atvinnuleysis; Afkoma ríkissjóðs betri en áætlað var; Jákvæð þróun utanríkisviðskipta, óvenju hagstæð byrjun á árinu hvað viðskiptajöfnuð varðar; Könnun Capacent sýnir mikla ferðagleði, ekki verið fleiri Íslendingar á faraldsfæti frá því fyrir hrun; Stórkostlegur árangur í markaðssetningu landsins sem ferðamannastaðar allt árið; Ísland friðsælasta land í heimi. Nýleg tveggja vikna rannsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var á sömu lund.

Í ljósi þess sem á undan fer er ákallið um sáttastjórnmál í loka greinar Helga, sem greinilega er beint til núverandi stjórnarandstöðu, nánast súrrealískt því hvergi vottar fyrir sátt eða sanngirni í hans málflutningi. Vitað er að stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili vann kerfisbundið að því að eyðileggja öll mál þáverandi stjórnar, jafnvel mál sem þjóðin hafði lýst stuðningi sínum við í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki mikill sáttahugur á ferðinni þar.

Reynum að komast upp úr sandkassanum. Engin ríkisstjórn eru alvond eða algóð. Látum því stjórnvöld á hverjum tíma nóta sannmælis. Það væri skref í átt að bættri stjórnmálamenningu.




Skoðun

Sjá meira


×