Skoðun

Stóra málið!

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Rannsóknarskýrsla Alþingis um Íbúðalánasjóð er vissulega svört, um það þarf ekki að deila. Engin ástæða er þó til að fyllast svartsýni um framtíð húsnæðismálanna. Við eigum að læra af skýrslunni og bæta vinnubrögð og stefnumótun.

Húsnæðismálin eru eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna. Öruggt húsnæði er grunnur að velferð fólks um leið og skipan húsnæðismála er eitt stærsta efnahagsmálið. Eðli málsins samkvæmt tekur tíma að gera breytingar á húsnæðiskerfinu.

Rannsóknarskýrslan um Íbúðalánasjóð sýnir að breytingar á fjármögnun húsnæðis geta haft alvarlegar afleiðingar ef ekki er hugað að víðtækum áhrifum þeirra í upphafi. Skýrslan sýnir einnig að markviss húsnæðisstefna er nauðsynleg til að tryggja fólki húsnæði af réttri stærð og á réttum stöðum. Nú á Íbúðalánasjóður um 2.200 íbúðir en innan við þriðjungur þeirra er í útleigu. Hinar standa auðar, sumar jafnvel ekki fullbyggðar eða í byggðarlögum þar sem lítil eftirspurn er eftir húsnæði.

Gagnleg umræða

Þverpólitískur samráðshópur um húsnæðisstefnu skilaði tillögum vorið 2011 og þar skapaðist samstaða um húsnæðisstefnuna. Lögð var áhersla á að innleiða húsnæðisáætlanir í sveitarfélögum, efla upplýsingar um húsnæðismarkaðinn, breyta húsnæðisstuðningi svo eigendum húsnæðis sé ekki gert hærra undir höfði en leigjendum, breyta rekstrarumhverfi húsnæðisfélaga og síðast en ekki síst skapa stöðuga umgjörð um fjármögnun húsnæðis. Á síðustu mánuðum og misserum hafa vinnuhópar verið að skila tillögum um þessa þætti stefnunnar. Nú er mikilvægt að koma þeim í framkvæmd enda mikil eftirspurn eftir húsnæði á viðráðanlegu verði.

Við í Samfylkingunni fögnum því að Eygló Harðardóttir, nýr félags- og húsnæðismálaráðherra, ætlar að skipa verkefnisstjórn um húsnæðismál og samvinnuhóp með henni. Heildstæðar tillögur liggja fyrir í velferðarráðuneytinu frá fyrri ríkisstjórn og rannsóknarskýrslan um Íbúðalánsjóð hefur að geyma mjög gagnlega umræðu.

Halda þarf áfram breytingum á Íbúðalánasjóði, ákveða skipan húsnæðislána og innleiða þá metnaðarfullu húsnæðisstefnu sem þverpólitísk sátt ríkir um. Húsnæðismálin eru stóra málið.




Skoðun

Sjá meira


×