Skoðun

Millidómstig eða Sameinaður Hæstiréttur?

Skúli Magnússon skrifar
Íslenskt réttarkerfi sker sig frá því sem almennt tíðkast í vestrænum ríkjum með því að hér á landi eru aðeins tvö megindómstig, héraðsdómur og Hæstiréttur. Víðast annars staðar eru fyrir hendi þrjú dómstig og er þá venjulegt að æðsta dómstigið, sem stundum er í höndum fleiri dómstóla, fjalli aðeins um túlkun laga í milvægum málum og hafi þannig bæði öryggis- og fordæmisgefandi hlutverk. Tveggja dómstiga kerfinu fylgja ýmis vandkvæði, einkum þau að hér á landi er gildi munnlegs framburðar í sakamálum aðeins metið á einu dómstigi, þ.e. í héraðsdómi. Þótt Hæstarétti sé raunar heimilt að kalla vitni fyrir dóminn kýs rétturinn þannig frekar að vísa málinu aftur heim í hérað, ef talið er að mat héraðsdóms á munnlegum framburði hafi verið bersýnilega rangt. Ef Hæstiréttur er ósammála héraðsdómi um mat á sönnun (þ.e. sekt eða sakleysi) leiðir það í reynd til þess að málið er að nýju tekið til meðferðar í héraði. Það liggur nokkuð í augum uppi hvers vegna þetta fyrirkomulag er ekki sérlega æskilegt en um það atriði mætti hafa mun lengra mál. Einnig má gagnrýna tveggja dómstiga kerfið með þeim rökum að með því sé Hæstarétti ekki skapaðar fullnægjandi forsendur til að sinna fordæmisgefandi hlutverki sínu.

Yfirlýsing ríkisstjórnar

Haustið 2010 skoruðu fagfélög lögfræðinga á Íslandi, þ.á m. Dómarafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands, á þáverandi dómsmálaráðherra að beita sér fyrir stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum. Í framhaldinu fór fram nefndavinna á vegum ráðuneytisins sem lyktaði með skýrslu sumarið 2011 án þess þó að henni væri frekar fylgt eftir. Það er því ánægjulegt að ný ríkisstjórn skuli taka upp þráðinn og lýsa yfir afdráttarlausum vilja til umbóta á réttarkerfinu í þessa veru. Hjá því verður þó ekki litið að fullskapað millidómstig þýðir nýja ríkisstofnun og fjölgun dómara og annarra starfsmanna sem erfitt, jafnvel ómögulegt, getur verið að réttlæta við núverandi aðstæður í opinberum rekstri. Aðrar leiðir en stofnun nýs dómstóls frá grunni hljóta því að koma til skoðunar.

Sameinaður Hæstiréttur

Í stað þess að stofnaður sé nýr dómstóll frá grunni má hugsa sér að tekið verði upp það fyrirkomulag að Hæstiréttur hlýði á munnlega framburði, eftir því sem talin er þörf á, og endurmeti gildi þeirra andstætt því sem nú tíðkast. Þessi meðferð mála yrði í höndum þriggja hæstaréttardómara í samræmi við það vinnulag sem Hæstiréttur hefur sjálfur tekið upp síðustu ár vegna aukins álags, þó þannig að Hæstiréttur fengi heimild til að kalla til sérfróða meðdómsmenn líkt og héraðsdómur. Í raun myndu þessar þriggja manna deildir Hæstiréttur starfa sem áfrýjunarréttur (eða Landsyfirréttur) svo sem tíðkaðist hér á landi allt til ársins 1920. Að fengnum dómi Hæstaréttar væri svo hægt að sækja um leyfi til áfrýjunar til „Sameinaðs Hæstaréttar“ sem skipaður yrði 7 eða 9 hæstaréttardómurum. Sameinaður Hæstiréttur myndi eingöngu dæma um lagaatriði og taka sérlega mikilvæg mál til meðferðar. Með Sameinuðum Hæstarétti yrðu skapaðar mun styrkari forsendur fyrir fordæmisgefandi dómum og stuðlað að samræmi í réttarframkvæmd, t.d. í málum á borð við nýleg gengistryggingarmál. Þá væri réttaröryggi jafnframt aukið með möguleika á úrlausn á því sem jafngilda myndi þriðja dómstiginu.

Haldið í kosti núverandi kerfis

Framangreint kerfi myndi hafa í för með sér einhverja fjölgun hæstaréttardómara og e.t.v. einhverjar breytingar á aðstöðu Hæstaréttar. Þetta rask væri þó smávægilegt samanborið við þann kostnað sem hljótast myndi af stofnun nýs millidómstigs frá grunni og rekstur þess til framtíðar. Þótt íslenskt dómskerfi standi frammi fyrir ákveðnum vandkvæðum má því ekki gleyma að hér er um að ræða ódýrt og skilvirkt kerfi sem staðist hefur ótrúlega vel aukið álag á síðustu árum. Við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum sýnist skynsamlegt að ætla sér ekki um of og taka fyrsta skrefið í átt til þriðja dómstigsins án þess að þessum kostum núverandi fyrirkomulags sé fórnað. Sameinaður Hæstiréttur væri þó ekki aðeins ódýr lausn fyrir ríkissjóð heldur einnig skynsamlegt fyrirkomulag með tilliti til styrkingar dómsvaldsins, réttaröryggis og fordæmisgefandi hlutverks Hæstaréttar.




Skoðun

Sjá meira


×