Skoðun

Lifandi tunga, lifandi málfræði

Gyða Erlingsdóttir og Hjördís Alda Hreiðarsdóttir og Þorsteinn Surmeli skrifa
Svo virðist sem hugtakið málfræði hafi fengið nokkuð neikvæða merkingu í hugum málnotenda. Margir tengja hana við utanbókarlærdóm, eyðufyllingar og tilgangsleysið sem þeir upplifðu þegar þeir sátu á skólabekk og reyndu með misgóðum árangri að skilja muninn á þáskildagatíð og núskildagatíð, viðurlögum og einkunnum. Efnið sem nemendur læra á grunnskólagöngu sinni er síðan að miklu leyti endurtekið í fyrstu íslenskuáföngum framhaldsskóla.



Það er þá ekki úr vegi að spyrja sig: Hvers vegna eyðum við dýrmætum kennslustundum í framhaldsskóla í að kenna þessi hugtök ef nemendur hafa þegar lært þau? Margar raddir hafa einmitt heyrst um að kennarar eyði of miklu púðri í þurra málfræðikennslu þegar hægt væri að verja tímanum í kennslu bókmennta og virðist sú skoðun líka nokkuð útbreidd meðal íslenskukennara. Hugsanleg skýring á skiptum skoðunum um mikilvægi málfræðikennslu er sá ólíki og oft afmarkaði skilningur sem gjarnan er lagður í hugtakið málfræði.



En málfræðin er svo miklu meira en bara fallbeyging, viðtengingarháttur, ég hlakka og mig langar. Undir hatt málfræðinnar falla líka viðfangsefni eins og máltaka barna, mál beggja kynja, slangur, nýyrði, orðræðugreining, málbreytingar, staðbundnar mállýskur og félagsleg málbrigði. Í þessum viðfangsefnum birtist einmitt fjölbreytileiki tungumálsins sem gerir það jafnlifandi og raun ber vitni en af einhverjum ástæðum virðast þó hefðbundin málfræðiverkefni frekar rata inn í kennslustofuna. Með því að fjalla um málfræði í stærra samhengi í móðurmálskennslu í framhaldsskólum fengju nemendur tækifæri til að kynnast tungumálinu enn betur og hagnýta hefðbundinn málfræðilærdóm. Það gætu þeir t.d. gert með því að rannsaka og lýsa eigin tungumáli með þeim hugtökum sem þeir hafa tileinkað sér. Því má líkja við að eftir að nemendur hafa lært hvað plús og mínus táknar í stærðfræði æfa þeir sig í að leggja saman og draga frá.



Höfundar vilja því nota þennan vettvang til að breiða út fagnaðarerindið: Málfræði er ekki bara stagl og eyðufyllingar og tilbúnar setningar í kennslubókum. Hún fjallar um tungumálið eins og það leggur sig og býr í öllu sem málnotendur mæla og rita á degi hverjum. Mikilvægt er að móðurmálskennarar veki athygli nemenda á því hversu breitt svið málfræðin nær yfir og glæði áhuga þeirra á fjölmörgum möguleikum greinarinnar. Beina þarf sjónum að virkni tungumálsins, en ekki einungis formi þess, með því að nálgast viðfangsefnið á nýjan hátt. Þannig gerum við málfræði að jafnlifandi námsgrein og viðfangsefni hennar, hin lifandi tunga, er.




Skoðun

Sjá meira


×