Skoðun

Segðu bara já

Það er ákveðið tækifæri fyrir konur í atvinnulífinu um þessar mundir. Ekkert tækifæri er þó svo gott að því fylgi ekki ákveðin vinna, ákveðin elja, útsjónarsemi og úthald. Því þarf oft að hugsa tækifærin í samhengi og ekki bara að hugsa tækifærið sem sitt eigið, heldur fyrir heildina. Næst þegar þér býðst spennandi tækifæri – taktu það þá jafnvel lengra.

StjórnarsetaÞað er ástæða fyrir því að félög kvenna í atvinnulífinu út um allan heim, háskólar og stofnanir ýmis konar hafa ákveðið að halda utan um lista þeirra kvenna sem hafa hug á stjórnarsetu og telja sig færar um slíkt. Það er ekki bara til að flýta fyrir ferlinu heldur einnig til að þrýsta á þann almenna orðróm að konur séu ekki tilbúnar. En það þarf ekki alltaf stofnun eða félagasamtök til að breytingar eigi sér stað. Allir geta tileinkað sér það að muna hæfa einstaklinga í kringum sig og það er sérlega mikilvægt nú þegar tækifæri í tengslum við stjórnarsetu kvenna eru í hámæli og lagasetning um hlutfall kvenna tekur gildi í september á þessu ári. Hellisbúinn Bjarni Haukur komst svo skemmtilega að orði um okkur konur þegar hann sagði að við værum safnarar. Nú er tækifæri til að safna og halda utan um og muna mikilvægar upplýsingar sem við getum svo miðlað áfram þegar tækifærin bjóðast. Fjölbreytileikanum og frama kvenna í atvinnulífinu til heilla.

FjölmiðlarAldrei svara beiðni fjölmiðla sem svo að önnur eða annar sé sennilega heppilegri viðmælandi ef þú veist betur. Það getur verið þægilegra og fljótlegra að svara því þannig, en prófaðu að taka boltann og móta eitthvað sem þú ert fullfær um og ræður við, oft betur en margur. Það er ástæða fyrir því að haft var samband við þig. Rammaðu inn hvað þú gætir mögulega haft um málið að segja og sannaðu til - þú hefur helling til málanna að leggja. Ef ekki, bentu á aðra kynsystur svo að hægt sé að auka hlut kvenna í fjölmiðlum og hægt sé að drepa mýtuna um að við segjum svo oft nei. Það hefur verið leitað til þín af góðri og gildri ástæðu og það er mögulega verið að reyna að auka markvisst þátttöku kvenna í viðkomandi þætti/miðli og það hefur engill miðill tími til að bíða í nokkra daga. Þeir vinna flestir frá degi til dags og ef þú einhverra hluta vegna þarft að segja nei og getur ómögulega tekið þetta að þér í það skiptið, stingdu þá upp á annarri sambærilegri í þinn stað. Eða segðu bara já og hliðraðu til. Sannaðu til þú vex eingöngu á því og tvíeflist fyrir næstu lotu.




Skoðun

Sjá meira


×