Skoðun

Mér finnst rigningin góð!

Bjarni Gíslason skrifar
Það voru brosandi og dansandi börn á Skerpluhátíð leikskólans Mýri í Skerjafirði 13. júní síðastliðinn. Fyrir utan að dansa við dynjandi tónlist, róla sér og leika í öðrum leiktækjum var vinsælt að skrúfa frá krana á viðartunnu sem tengd var við þakrennu leikskólans. Sem betur fer hafði rignt þannig að tunnan var full af vatni og hægt að fylla fötur af vatni og leika sér. Einn og einn fékk sér meira að segja að drekka.

Börnin höfðu áður séð myndir og fengið fræðslu um stöðu barna í Úganda sem hafa ekki aðgang að hreinu vatni og hvernig vatnstankur sem safnar rigningarvatni breytir aðstæðum til hins betra. Í fræðslunni var spurningunni „Hver hefur skrúfað frá vatnskrana í dag?“ varpað fram og margar hendur fóru á loft og margir kölluðu „Það gerði ég, ég líka“. Í framhaldinu var upplýst að mörg börn til dæmis í Úganda hafa ekki krana til að skrúfa frá, heldur þurfa þau að fara langar leiðir til að sækja vatn, oft óhreint vatn.

Hjálparstarf kirkjunnar reisir hús og vatnstanka fyrir börn sem hafa misst foreldra sína úr alnæmi og einstæðar mæður sem lifa með sjúkdómnum. Viðartunnan góða sýnir vel hvernig vatnstankarnir virka, þeir safna rigningarvatni sem dugar 3-4 mánuði inn í þurrkatímann. Þá þarf ekki að fara langar leiðir og sleppa skólanum, heldur er hægt að skrúfa frá krana á vatnstankinum og fá sér gott vatn.

Svo kemur að því að tunnan verður tóm, af því að það hefur ekki rignt og þá skilja börnin betur aðstæður sums staðar í Afríku. Og setningin „Mér finnst rigningin góð“ fær dýpri merkingu.

Börnin létu ekki nægja að setja sig í spor jafnaldra í Úganda heldur tóku, með starfsmönnum og aðstandendum, til sinna ráða og söfnuðu fyrir vatnstanki og gott betur, einni geit líka. Sannarlega gjöf sem gefur. Fleiri slíkar gjafir má sjá á www.gjofsemgefur.is.

Lokasetningin á þakkarskjali til barnanna er: ÞIÐ ERUÐ FRÁBÆR, orð sem ljúft er að endurtaka.




Skoðun

Sjá meira


×