Hann er einn af mörgum sem voru „sviknir“ af skólakerfinu. Magnús Þorkelsson, aðstoðarskólameistari við Flensborg, er einn af mörgum góðum viðmælendum mínum í þáttaröðinni Tossarnir á Stöð 2. Í DV í fyrradag segir hann það einkennandi fyrir þættina að fullyrðingum sé slengt fram og ýjar að því að farið sé óvarlega með tölur.
Þessu verð ég að mótmæla. Magnús skrifar: „Dæmi: Strákum gengur verr í skóla en stelpum. Rangt.“ Ótal tölur benda til þess að fleiri strákar en stelpur fúnkeri illa í skóla. Rannsóknir og greining, sem hefur rannsakað hagi ungmenna á Íslandi í um tuttugu ár, var svo elskuleg að vinna úr sínum gögnum fyrir þættina.
Tölfræði frá þeim sýnir m.a.:
- Árið 2012 leiddist nærri tvöfalt fleiri strákum (29%) en stelpum (16%) námið í 9. og 10. bekk. Kynjamunur hefur verið viðvarandi í þessu um árabil.
- Samkvæmt Hagstofunni (fólk innritað í framhaldsskóla 2003) höfðu 36% strákanna útskrifast eftir fjögur ár en 52% stelpna.
- Kynjamunur hefur verið viðvarandi í PISA-rannsóknum á Íslandi allt frá árinu 2000.
Enginn hefur samúð með Excel-tölum
Öll tölfræði í Tossunum er byggð á traustum gögnum. Hins vegar er skoðunum slengt fram, eðli máls samkvæmt. Ekki veit ég hvort það er „femínismi“ eða „andfemínismi“ sem er að skaða drengi í skólum. Held það sé ekki hægt að mæla það.
Þá segir Magnús þættina öfluga „en svolítið ruglingslega“. Það hefur enginn samúð með Excel-tölum. Við getum hins vegar skilið og skynjað vandann í gegnum ruglingslegt líf fólks sem flosnaði upp úr skóla – og vonandi gert eitthvað í þessu!