Lífið

Má ekki kalla sig Íslandsmeistara

Freyr Bjarnason skrifar
Jorge Fonseca hefur unnið íslandsmótið í kotru tvö ár í röð.
Jorge Fonseca hefur unnið íslandsmótið í kotru tvö ár í röð.

„Það er allt í lagi þótt ég fái ekki bikarinn. Það er bara gaman að spila með,“ segir Spánverjinn Jorge Fonseca. Hann bar sigur úr býtum á Íslandsmótinu í kotru í Þjóðmenningarhúsinu á sunnudaginn. Þrátt fyrir það getur hann ekki titlað sig sem Íslandsmeistara vegna þess að hann er spænskur ríkisborgari. Í staðinn er Fjalarr Páll Mánason Íslandsmeistari þrátt fyrir að hafa beðið lægri hlut fyrir Jorge í úrslitunum. Jorge flutti til Íslands fyrir sex árum og starfar sem forritari.

„Ég hef alltaf haft áhuga á spilum. Kotra er eins konar blanda af skák og póker. Um leið og ég byrjaði að læra þetta fannst mér þetta skemmtilegt spil.“ Jorge vann Íslandsmótið einnig í fyrra og í hitteðfyrra deildi hann efsta sætinu með öðrum spilara. Fyrsta árið sem hann tók þátt, 2010, tapaði hann úrslitaleiknum.

Mótshaldarinn Stefán Freyr Guðmundsson segir Jorge mjög góðan. „Það er töluvert stór heppnis-„faktor“ í þessu spili og það er mjög auðvelt að misstíga sig, sem gerir þetta enn merkilegra,“ segir hann um árangur Spánverjans. Sjálfur vonast Jorge til að fá íslenskan ríkisborgararétt á næsta ári. Þá á hann loksins möguleika á að hampa Íslandsmeistarabikarnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×