Skoðun

Aðkoma hótels við Fógetagarð?

Helgi Þorláksson skrifar

Um þessar mundir er í kynningu tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Landsímareit í Kvosinni í Reykjavík. Samkvæmt henni má reisa hús í Kirkjustræti, á bílastæðinu andspænis hinum gömlu húsum Alþingis og alveg að gangstétt (götuhæð skal eitthvað inndregin). Þarna verður svæðið milli húsa því miklu þrengra en núna er.

Gert er ráð fyrir að í þessu nýja húsi, og hinum gömlu húsum Pósts og síma, verði hótel, stórt og mikið (segir ekki í tillögunni að verði hótel en liggur samt fyrir). Ekki er sýnt hvar aðalaðkoma að hótelinu verði, eða anddyri þess, en þrír staðir virðast helst koma til greina, Thorvaldsensstræti við Austurvöll, Kirkjustræti, þar sem nýja húsið skal rísa, og svo Fógetagarður (Víkurgarður). Í andmælum frá forseta Alþingis og forsætisnefnd kemur fram að ekki gangi að hafa anddyrið við Austurvöll og þröngi kaflinn við Kirkjustrætið komi ekki heldur til greina vegna vanda sem fylgi umferð og vegna öryggis sem tryggja verði þinginu. Þá er aðeins Fógetagarður eftir, austurhluti hans á einhvern hátt. Samt er í umsögn sem fylgir tillögunni lögð áhersla á útivist og útiveitingar í Fógetagarði og „gott flæði“ milli hans og Austurvallar. Allt skal vera heilnæmt í Fógetagarði og er m.a. gert ráð fyrir börnum að leik.

Eitthvað er örðugt að sjá þetta fyrir sér og um leið rútur, fjallabíla, leigubíla og bílaleigubíla sem flytja gesti hótelsins til og frá. Það segir reyndar í umsögninni með tillögunni að umferð um Kirkjustræti eigi að vera tímabundin og takmörkuð. En svo er bætt við að vinna þurfi frekar með þetta atriði. Það er orðað svona: „Unnið verði sérstaklega með umhverfi og umferð um Kirkjustræti, aðkomu að Austurvelli og Víkurgarði enda um mikilvægt almenningsrými í miðborginni að ræða.“

Þetta skil ég svo að ekki liggi fyrir nein skýr tillaga um aðkomu að hótelinu og að vandinn sé óleystur. Ótrúlegt er að höfuðborgarbúar og aðrir landsmenn vilji samþykkja svo óljós atriði, þegjandi og hljóðalaust; fyrst þarf að liggja fyrir, skýrt og skorinort, hvar aðalaðkoma hótelsins skuli vera. Mótmæla má með því að senda póst á skipulag@reykjavik.is. Það þarf að gera ekki síðar en 23. maí nk.




Skoðun

Sjá meira


×