Skoðun

Auðlindin fjöll… Auðlindin Bláfjöll!

Hildur Jónsdóttir skrifar
Nú er liðinn síðasti opnunardagur á skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Fjöllin báru við bláan himinn, sólin skellihló og hvítir toppar toguðu til sín marga skíðamenn á öllum aldri bæði á miðvikudagskvöld og fimmtudag. Haldin var hátíð snjóbretta og skíðamanna miðvikudagskvöldið 7. maí í dulúðlegri kvöldstemningunni.

Af hverju er þetta merkilegt? Jú, maímánuður er nærri hálfnaður og ennþá er fullt af snjó á skíðasvæðinu. Þvílíkt færi, hart og vel troðið um morguninn, sólin mýkti svo snjóinn aðeins síðdegis.

Mikil vinna á bak við hvern dag

Í vetur hefur verið opið í Bláfjöllum í 74 daga. Þegar mest hefur verið voru um 5.000 gestir á svæðinu. Ef skoðað er meðaltal gesta í vetur hafa verið um 1.100 gestir hvern einasta dag í fjallinu. Það hefur verið ærin vinna að ná þetta mörgum dögum í fjallinu og eiga Einar Bjarnason og hans harðduglegu starfsmenn mikið hrós skilið. Ég held að enginn viti hvað mikil vinna liggur á bak við glæsilegan dag í Bláfjöllum. Eldsnemma þarf að byrja að berja ís af vírum, undirbúa lyftur, kalla til starfsmenn á hverja vinnustöð og halda svo öllu gangandi fram til kvölds. Þegar mest hefur verið að gera eru 50 starfsmenn að vinna á svæðinu. Þetta er atvinnuskapandi og ánægjuskapandi vinnustaður.

Á degi eins og síðasta opnunardaginn voru fjölskyldur með fullt af börnum á öllum aldri á leið upp í Töfrateppinu, ein barnalyfta var opin og starfsmaður kallaði hvatningarorð til eins gutta sem datt aftur og aftur: „Þetta er alveg að koma hjá þér.“ Stöðug umferð var í 4ra stóla lyftuna í Kóngsgili og alls staðar var líf og fjör í frábæru veðri. Að rekstrinum standa sjö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Ef forsvarsmenn þessara sveitarfélaga sæju hversu heilbrigt og gott starf fer þarna fram væru þeir stoltir af að fá að vera með. Ég vil með orðum mínum beina þeirri ósk til sveitarfélaganna sem reka skíðasvæðið að líta á fjöllin sem auðlind og það starf sem þar fer fram. Ég sem skattgreiðandi í þessu samfélagi er stolt af því að leggja eitthvað af mörkum til að þessi frábæra íþrótt fái að vaxa og dafna.




Skoðun

Sjá meira


×