Lífið

Semur fyrir maltneska söngkonu

Sara McMahon skrifar
„Ég er svo heppinn að hafa unnið með Valla [Valgeiri Magnússyni] áður. Hann sér um þessa glæsilegu söngkonu og spurði mig í haust hvort ég vildi vinna lag með henni. Ég er alltaf opinn fyrir nýjum verkefnum og sagði já,“ segir tónlistarmaðurinn Haffi Haff um nýtt lag sem hann samdi og syngur ásamt maltnesku söngkonunni Chiara. Lagið heitir Zarbun sem þýðir skór á maltnesku.

Haffi samdi lagið í samstarfi við Valgeir og Örlyg Smára og hefur það þegar fengið yfir 96 þúsund áhorf á Youtube. Þrátt fyrir gott samstarf undanfarna mánuði hefur Haffi enn ekki hitt Chiöru í eigin persónu. „Við höfum aldrei hist. En Chiara sagði mér að nafnið mitt þýði á maltnesku skólaus maður. Það þótti mér skemmtileg tilviljun í ljósi þess að lagið heitir Skór,“ segir hann og hlær.

Spurður út í sumaráform sín segist Haffi hlakka einna mest til þess að vera viðstaddur brúðkaup góðrar vinkonu sinnar. „Stundum snúast áformin um aðra en mann sjálfan,“ segir hann hlæjandi og bætir við: „Alheimurinn ræður svo restinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.