Viðskipti innlent

Fyrsta konan í fimmtán ár til að stýra skráðu fyrirtæki

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, sem er upphaflega frá Stykkishólmi, varð margfaldur Íslandsmeistari í körfubolta með KR í kringum 1980. Fréttablaðið/Vilhelm
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, sem er upphaflega frá Stykkishólmi, varð margfaldur Íslandsmeistari í körfubolta með KR í kringum 1980. Fréttablaðið/Vilhelm
Sigrún Ragna Ólafsdóttir varð á dögunum fyrsta konan í fimmtán ár og sú önnur alls til að stýra skráðu fyrirtæki á Íslandi þegar viðskipti hófust með hlutabréf í VÍS í Kauphöllinni. Markaðurinn ræddi við Sigrúnu í tilefni af skráningunni.

„Það er búið að vera mjög krefjandi og ánægjulegt að taka þátt í söluferlinu og skráningu félagsins á markað. Þetta var ný reynsla,“ segir Sigrún Ragna, sem var í framkvæmdastjórn Íslandsbanka áður en hún var ráðin forstjóri VÍS í ágúst 2011. Þar áður starfaði hún sem endurskoðandi hjá Deloitte í tuttugu ár.

„Þegar ég hætti hjá Deloitte var ég stjórnarformaður félagsins og hafði um árabil tekið þátt í að byggja upp þetta stóra sérþekkingarfyrirtæki. Hjá Íslandsbanka tók ég svo þátt í því að byggja upp nýjan banka eftir hrunið, sem var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að takast á við,“ segir Sigrún.

Þátttakan í hlutafjárútboði VÍS var mikil og reyndist tíföld umframeftirspurn eftir hlutabréfum. Sigrún Ragna segir að í útboði félagsins hafi fjárfestum boðist nýr valkostur sem augljóslega hafi verið tekið fagnandi. „Þetta er fyrsta tryggingafélagið til að fara á markað eftir hrun. Þetta er arðgreiðslufélag og félag með langa og trausta sögu um ágætis afkomu. Ég held að það hafi endurspeglast í áhuga fjárfesta,“ segir Sigrún.

Sigrún Ragna er uppalin í Stykkishólmi og eins og Hólmara er háttur spilaði hún körfubolta á sínum yngri árum. „Þegar yngri flokkunum sleppti spilaði ég með KR og menn hafa stunduð kallað það lið gullaldarlið kvennakörfunnar í KR enda tókum við þó nokkra titla á þessum árum.“

Utan skrifstofunnar er Sigrún mikil útivistarmanneskja, en henni finnst fátt betra en að komast í stangveiði. „Mér finnst rosalega gott að vera úti við. Mér finnst gaman að fara út að hlaupa eða ganga og ef ég get gengið á eftir golfbolta er það ágætt. Svo finnst mér mjög gaman að fara á skíði. Þetta eru aðaláhugamálin, áhugamál sem fjölskyldan getur tekið þátt í saman,“ segir Sigrún, sem er gift Eiríki Jónssyni viðskiptafræðingi og eiga þau saman tvo drengi.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.